Tveir stærstu framleiðendur kísilmálms í Bandaríkjunum hafa óskað eftir því við viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna að innflutningstollar verði lagðir á kísilmálm innfluttan frá Íslandi, að því er kemur fram í tilkynningu frá framleiðendunum.

Áskorunin er í nafni Ferroglobe PLC og Missisippi Silicon LLC, sem samanlagt stjórna meira en helmingi allrar kísilmálmframleiðslu í Bandaríkjunum. Ásamt því að leggja á innflutningstolla á íslenskan kísilmálm, vilja bandarísku framleiðendurnir að tollar verði lagðir á sambærilega vöru sem flutt er til Bandaríkjanna frá Bosníu, Malasíu og Kasakstan.


Ósanngjarnar ívilnanir


Að sögn Ferroglobe og Missisippi Silicon, njóta framleiðendur landanna fjögurra ósanngjarns samkeppnisforskots, með því að selja kísilmálm á niðursettu verði í krafti ósanngjarna niðurgreiðslna við framleiðslu (e. dumping). Er því haldið fram að innflutningsverð á málmi frá löndunum fjórum sé á bilinu 54-85 prósentum lægra en eðlilegt getur talist.

Ekki er útskýrt nánar um hvaða ósanngjörnu niðurgreiðslur er að ræða, en í málum sem þessum er gjarnan litið á óeðlilega lágan kostnað við aðföng, svo sem hráefni til framleiðslu, eða raforku.

Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri PCC á Bakka, segir að hann geti lítið tjáð sig um aðgerðir bandarísku fyrirtækjanna og hann bíði enn viðbragða frá yfirstjórn PCC í Þýskalandi.

Marco Levi, forstjóri Ferroglobe, segir í tilkynningunni að undirverðlagður innflutningur frá Íslandi og fleirum, hafi komið illa niður á bandarískum framleiðendum síðastliðin þrjú ár. Levi bendir einnig á að nýlega hafi innflutningstollar á rússneskan kísilmálm verið framlengdir, af sambærilegum ástæðum og nú eru tilteknar í máli íslensku framleiðendanna. Ekki náðist í Marco Levi við vinnslu fréttarinnar.


Um fjórðungur sölu PCC til Bandaríkjanna


Samkvæmt gögnum frá bandarísku ríkisstofnuninni US Geological Survey (USGC), sem meðal annars birtir mánaðarlegar tölur um innflutning á málmefnum til Bandaríkjanna, voru ríflega 19 þúsund tonn af kísilmálmi flutt inn til Bandaríkjanna frá Íslandi á árinu 2019. Innflutningur fyrstu fjóra mánuði þessa árs nam 5,500 tonnum, samkvæmt gögnum frá USGC.

Rúnar segir hins vegar að heildarframleiðsla PCC á Bakka frá upphafi hljóði upp á 32 þúsund tonn. Þar af hafi um átta þúsund tonn farið til Bandaríkjanna.

Nefna má að verksmiðja Bakka náði ekki fullum afköstum fyrr en í október á síðasta ári.


Gamlar birgðir United Silicon


Því má leiða líkur að því að gamlar birgðir, framleiddar af United Silic­on í Helguvík, hafi verið seldar til Bandaríkjanna á síðasta ári, en stærstur hluti þess kísilmálms sem fluttur var til Bandaríkjanna á síðasta ári og fyrstu fjóra mánuði þessa árs var af 80% hreinleika eða minna. United Silicon hætti framleiðslu 2017 og varð gjaldþrota í janúar 2018 eftir sífelld vandræði við framleiðslu.

Fram kemur í fréttatilkynningu að yfirvöld vestra muni birta niðurstöðu sína vegna umkvörtunar fyrirtækjanna tveggja þann 14. ágúst næstkomandi.

Íslenska ríkið fyrirhugaði upphaflega að verja 1,8 milljörðum til uppbyggingar á Bakka. Á endanum kostaði þó verkefnið, sem sneri fyrst og fremst að gerð jarðganga undir Húsavíkurhöfða og vegtenginga við Bakka, um 3,5 milljarða

Rannsóknir ESA á ívilnunum PCC

PCC naut ýmiss konar fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera við uppbyggingu verksmiðjunnar á Bakka við Skjálfandaflóa. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafði töluverð afskipti af uppbyggingarferlinu. Taka má fram að ESA skoðar alla raforkusamninga sem Landsvirkjun gerir við viðskiptavini sína.

Í mars 2014 heimilaði ESA að PCC nyti styrkja í formi skattaívilnana og framlaga frá íslenska ríkinu, upp á allt að 3,6 milljörðum króna. Að sama skapi samþykkti ESA styrk frá íslenska ríkinu og sveitarfélaginu Norðurþingi, í formi beinna fjárframlaga og víkjandi lána, í þeim tilgangi að byggja upp hafnaraðstöðu við Bakka.

ESA setti síðan Íslandi stólinn fyrir dyrnar þegar fyrri orkusölusamningur PCC og Landsvirkjunar leit dagsins ljós. Í fyrsta lagi lýsti ESA yfir efasemdum um hvort væntar tekjur samkvæmt raforkusamningi PCC og Landsvirkjunar yrðu nægar til að réttlæta fjárfestingu í 45 megavatta virkjun Landsvirkjunar við Þeistareyki. Að sama skapi þótti fimm milljarða fjárfesting, sem ráðast átti í til að tengja verksmiðju PCC við dreifikerfi Landsnets, fela í sér ívilnun til handa PCC, og ekki í samræmi við samkeppnislög EES.

Svo fór að Landsvirkjun og PCC sömdu upp á nýtt og hlutu þá blessun ESA: „Þegar kannað er hvort samningar séu gerðir á markaðskjörum, er nauðsynlegt að rýna í skilmála hvers samnings fyrir sig. Landsvirkjun lagði fram yfirgripsmikil gögn, sem að mati ESA sýna fram á að samningurinn um kaup á raforku er arðsamur og skilmálar hans eru slíkir að einkarekið fyrirtæki myndi samþykkja hann við sambærilegar aðstæður,“ sagði í úrskurði ESA í maí 2015.

Íslenska ríkið fyrirhugaði upphaflega að verja 1,8 milljörðum til uppbyggingar á Bakka. Á endanum kostaði þó verkefnið, sem sneri fyrst og fremst að gerð jarðganga undir Húsavíkurhöfða og vegtenginga við Bakka, um 3,5 milljarða. Þar að auki er uppi óvissa um hvort 819 milljóna króna víkjandi lán til hafnarsjóðs svæðisins fáist endurgreitt, í ljósi núverandi stöðu Bakkaverkefnisins, að því er kom fram í skriflegu svari Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur iðnaðarráðherra, við fyrirspurn á þingi í febrúar 2019