Skuldabréfaeigendur fasteignafélagsins Upphafs, sem er í eigu sjóðsins GAMMA:NOVUS, hefur verið boðin skilmálabreyting á skuldabréfunum sem felur í sér að fastir vextir lækki með aturvirkum hætti úr 15 prósentum niður í 6 prósent en verði jafnframt tengdir afkomu fasteignafélagsins.

Þetta kemur fram í fundarboði sem Markaðurinn hefur undir höndum vegna fundar nýrra forsvarsmanna sjóðsins með skuldabréfaeigendum sem haldinn verður á þriðjudaginn í næstu viku. Samkvæmt tillögum um breytingu á skilmálum skuldabréfaútgáfunnar, sem nam 2,7 milljörðum króna og var kláruð í júní á þessu ári, verða vextir lækkaðir úr 15-16,5 prósenta föstum vöxtum niður í 6 prósenta fasta vexti með afturvirkum hætti.

Skuldabréfaeigendum verður veittur réttur á vaxtaauka sem nemur allt að muninum á 6 prósenta vöxtum og 15-16,5 prósenta vöxtum, af útistandandi höfuðstól skuldabréfanna á hverjum tíma, en greiðsla vaxtaauka verður háð afkomu félagsins. Þá verður gjalddagi höfuðstólsins færður frá 30. maí 2021 til 30. maí 2022 og verður það jafnframt eini vaxtagjalddaginn.

Í bréfi síðastliðinn mánudag voru sjóðsfélagar NOVUS upplýstir um að við endurmat á eignum og áætlunum sjóðsins þá væri eigið fé, sem þremur mánuðum áður var metið á um 3,9 milljarða, nú aðeins talið vera um 42 milljónir. Þá var gengi sjóðsins, sem fór hæst í 250 í árslok 2017, lækkað niður í 2 en það bráðabirgðagengi byggir á því að áform um viðbótarfjármögnun upp á einn milljarð króna, til að mæta lausafjárvanda Upphafs, gangi eftir.

Samkvæmt fundarboðinu mun viðbótarfjármögnunin fela í sér að gefin verða út forgangsskuldabréf sem verða framar í kröfuröð en skuldabréf í fyrri skuldabréfaútgáfunni. Bréfin munu bera 12 prósenta fasta vexti og lokagjalddagi er tveimur árum frá útgáfu. Núverandi skuldabréfaeigendur hafa forgang að kaupum í forgangsskuldabréfunum.

Á meðal einkafjárfesta sem voru hvað stærstir við fjármögnun NOVUS á sínum tíma var Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélags Vestmannaeyja, samkvæmt heimildum Markaðarins, en félag í hennar eigu fjárfesti í sjóðnum fyrir hundruð milljóna. Félag Guðbjargar var einnig umsvifamikið í hópi fjárfesta sem lánuðu samtals 2,7 milljarða króna til Upphafs í tengslum við skuldabréf til tveggja ára sem félagið gaf út í byrjun júní á þessu ári. Þá voru Stoðir, stærsta fjárfestingafélag landsins, einnig á meðal þátttakenda í skuldabréfaútboðinu og fjárfestu í því fyrir samtals 500 milljónir króna, samkvæmt heimildum.

Nýir stjórnendur GAMMA, dótturfélags Kviku, vinna nú meðal annars að því að taka saman og kanna greiðslur sem runnu frá Upphafi fasteignafélagi til félaga sem komu að framkvæmdaverkefnum sem Upphaf hefur unnið að, vegna gruns um að mögulega hafi ekki verið eðlilega að þeim staðið.

Þá greindi Fréttablaðið frá því í dag að kostnaðar­áætlun sem verkfræðistofa vann fyrir Upphaf fasteignafélag vegna verkefnis á Kársnesi hafi verið virt að vettugi. Upphaf hafi farið eftir annarri kostnaðaráætlun sem var unnin innan félagsins og vanáætlaði kostnað verulega.