Ráðgjafa og hugbúnaðar fyrirtækið Expectus hefur gefið út nýtt mælaborð þar sem hægt er að bera saman verð og vínanda í þeim mörgu tegundum sem fást hjá ÁTVR.

Mælaborðið er unnið upp úr gögnum frá Áfengis og tóbaksverslun ríkisins og hægt er að bera saman lítraverð og átta sig á lítraverði með tilliti til vínanda í drykknum.

Þannig geti neytendur gert upplýstari áfengiskaup. Hægt er að nálgast mælaborðið á síðu Expectus hér.

Garðar Benediktsson, gagnasérfræðingur hjá Expectus, vann mælaborðið úr gögnum vínbúðarinnar.

„Þetta mælaborð er nú meira til gamans gert en sýnir vissulega hvað er hægt að gera margt með fyrirliggjandi gögn,“ segir hann en hann telur að mörg fyrirtæki á Íslandi liggi á gríðarlegum verðmætum sem falin séu í gögnum þeirra.

„Þessi verðmætu gögn er hægt að nýta til að taka upplýstari ákvarðanir í fyrirtækjarekstri. Við hjá Expectus getum hjálpað til við slíkt“, segir Garðar.

Til dæmis sé hægt að taka ákvarðanir um þann jólabjór sem neytendur vilja kaupa út frá upplýstri ákvörðun sem hafi hagsýni að leiðarljósi.