Upplýsingatæknifyrirtækið Xerox, sem hefur lýst yfir áhuga á að sameinast HP, kynnti í gær áform sín um að reyna að skipta út stjórn tölvurisans. Forsvarsmenn Xerox lögðu þá fram lista yfir ellefu manns sem eru sagðir reiðubúnir til þess að taka sæti í stjórn HP í stað núverandi stjórnarmanna.

Kandídatar Xerox, sem er umtalsvert minna fyrirtæki en HP að markaðsvirði, eru meðal annars núverandi og fyrrverandi bankamenn, ráðgjafar og framkvæmdastjórar hjá Verizon, Hilton og Novartis.

Forsvarsmenn HP hafa hingað til hafnað öllum umleitunum Xeros um sameiningu fyrirtækjanna tveggja en þeir hafa sagst hafa „talsverðar áhyggjur“ af rekstri Xeros og efast um að sameinað fyrirtæki geti náð fram tveggja milljarða dala hagræðingu, eins og stjórnendur Xerox hafa haldið fram.

Xerox hefur á síðustu vikum keypt lítinn hlut í HP, samkvæmt heimildum Financial Times, en eignarhluturinn veitir fyrirtækinu rétt á því að tilnefna menn í stjórn tölvurisans. Verður stjórn HP skipt út í heild sinni, að sögn blaðsins, ef meirihluti hluthafa félagsins styður frambjóðendur Xerox.

„Hluthafar HP hafa sagt okkur að þeir trúi því að tillaga okkar muni skapa gríðarlegt virði fyrir fyrirtækið,“ segir John Visentin, forstjóri Xerox, um áformin. „Við teljum að hagsmunum hluthafa HP sé betur borgið með nýjum sjálfstæðum stjórnarmönnum sem skilja þær áskoranir sem fylgja rekstri alþjóðlegs fyrirtækis,” bætti hann við.

Fjárfestirinn Carl Icahn, sem fer með eignarhlut í bæði HP og Xerox, hefur þrýst á stjórn fyrrnefnda fyrirtækisins um að samþykkja sameiningu fyrirtækjanna tveggja. Stjórnin hefur eins og áður sagði ekki viljað ljá máls á því en hún hafnaði á síðasta ári 33 milljarða dala yfirtökutilboði Xerox.