Malasíska samsteypan Berjaya Corporation stefnir á að reisa fimm stjörnu Four Seasons lúxushótel að Geirsgötu 11 á Miðbakka við Gömlu höfnina í Reykjavík samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Eins og greint var frá í Markaðinum í dag hefur dótturfélag malaísku samsteypunnar gengið frá kaupum á fasteigninni. Seljendur eru félögin Fiskitangi og Útgerðarfélag Reykjavíkur sem eru að stærstum hluta í eigu Guðmundar Kristjánssonar, útgerðarmanns og forstjóra Brims.

Berjaya, sem var stofnað af milljarðamæringnum Vincent Tan, eiganda breska knattspyrnufélagsins Cardiff City, hefur sagt að kaupin á Geirsgötu 11 myndu gefa félaginu tækifæri til þess að hefja fjárfestingar, svo sem á sviði fasteignaþróunar og sér í lagi hótelstarfsemi, á Íslandi. Félagið, sem átti í lok október í fyrra eignir upp á alls 390 milljarða króna, rekur hótel víða í suðausturhluta Asíu sem og í Lundúnum.

Engar breytingar sem heimila slíka uppbyggingu hafa verið gerða á skipulagi hafnarsvæðisins. Stjórn Faxaflóahafna samþykkti haustið 2018, að tillögu skipulagsfulltrúa hafnarinnar, að bíða með framkvæmdir og uppbyggingu á Miðbakka þar til framkvæmdum við Austurhöfn lýkur og ljóst yrði með hvaða hætti skipulag umferðar um Austurbakka og starfsemi á jarðhæð hússins verður.