Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins mun leggja það til á borgarstjórnarfundi á morgun að móðurfélag Orkuveitu Reykjavíkur, sem er eignarhaldsfélag Orku náttúrunnar, Gagnaveitunnar og Veitna. Er þetta sagt munu spara fjármuni en þar að auki uppfylla gildandi Evrópulöggjöf um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisrekstrar.

Í raforkutilskipunum Evrópusambandsins sem innleiddar þegar hafa verið með raforkulögunum frá 2003 er gerð krafa um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja. Uppskipting Orkuveitunnar átti sér stað í ársbyrjun 2014, en hafði frá þeim tíma verið á undanþágu frá reglunum. Var OR þá skipt upp í samstæðu sem samanstendur af móðurfélagi og þremur dótturfélögum. Þá var sameignarsamningur OR endurnýjaður ásamt eigendastefnu.

Sjálfstæðismenn í borginni benda á að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hafi bent á skörun við skipan stjórna í stjórnsýsluúttekt sem gerð var árið 2008. Sömu áherslur var svo að finna í skýrslu úttektarnefndar OR sem gefin var út í október 2012.

Einnig er bent á að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hafi gert úttekt á fyrirkomulagi dótturfélaga í samstæðu Orkuveitunnar árið 2018: „Fyrirkomulag um skipan stjórna dótturfyrirtækja OR samræmist ekki leiðbeiningum um stjórnarhætti þar sem þær eru allar þrjár skipaðar að meirihluta aðilum sem geta ekki verið óháðir þegar litið er til skilgreiningar leiðbeininga um stjórnarhætti er varðar starfsmenn aðila sem hafa yfirráð yfir félaginu.“

Sjálfstæðismenn benda á að gæta skuli þess að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfisstarfsemi eða verndaðri starfsemi við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur: „Fullur aðskilnaður næst best með því að rekstrareiningarnar séu sjálfstæðar. Eignarhald borgarinnar og annara sveitarfélaga verður þá beint í rekstarfélögunum og mun það auka gagnsæi og einfalda skipurit. Sem dæmi má nefna að Hitaveitu Suðurnesja var skipt upp í tvær rekstrareiningar og er fullur aðskilnaður tryggður þar sem ekki var áfram starfrækt sérstakt eignarhaldsfélag. Margt bendir til þess að besta leiðin til að tryggja aðskilnað og gagnsæi sé að dótturfélög OR verði sjálfstæð og ekki verði eignarhaldslegt millilag eins og tíðkast hefur frá árinu 2014. Nú sjö árum síðar hefur reynslan sýnt galla á núverandi fyrirkomulagi og því rétt að endurskoða það,“ segir í greinagerð borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna vegna tillögunnar sem lögð verður fram á morgun.