Vaxtarrýmið Snjallræði hefur göngu sína í lok ágúst. Vaxtarrými (e. incubator) er líkt nýsköpunarhraðli en er frábrugðið að því leyti að vaxtarrýmið nær yfir lengra tímabil og meiri áhersla er lögð á sjálfsvinnu fyrirtækjanna. Að baki Snjallræði stendur Klak – Icelandic Startups en þau auglýsa nú eftir þátttakendum.

Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Klaks, segir í samtali við Markaðinn að Snjallræði leggi sérstaka áherslu á að þátttakendur séu að leysa raunveruleg samfélagsleg vandamál.

„Snjallræði hefst í ágúst og stendur fram í byrjun desember þannig að það spannar 16 vikur. Markmiðið er að hjálpa frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum en líka nýsköpunarverkefnum hjá félagasamtökum og stofnunum við að ná árangri. Við erum að leita að verkefnum sem leysa einhvern brýnan samfélagslegan vanda,“ segir Kristín og nefnir að ýmis fyrirtæki sem eru starfandi í dag hafi tekið þátt í Snjallræði. Sem dæmi megi nefna Bergið Headspace og Green Bytes. Hún bætir við að í ár sé Klak að fara í spennandi samstarf með MIT DesignX.

„Þungamiðjan í vaxtarrýminu eru þessar fjórar tveggja daga vinnustofur með sérfræðingum frá MIT en þeir koma hingað í Grósku og verða með okkur á staðnum en til viðbótar verða vinnustofur haldnar af Klaki í samstarfi við ýmsa háskóla.“

Í ár er fyrsta skiptið sem Klak er í formlegu samstarfi við MIT DesignX en Kristín segir að samstarfið bjóði upp á marga spennandi möguleika.

„Þetta prógramm sem MIT hefur verið að þróa í fjöldamörg ár þykir virkilega gott. Okkar markmið er að auka líkurnar á að fólk sem er með góða lausn á raunverulegu vandamáli geti látið hana verða að veruleika og stuðlað að samfélagsumbótum.“

Snjallræði er nú haldið í fjórða sinn en verkefnið var stofnað af Höfða friðarsetri í samstarfi við Háskóla Íslands árið 2018. Kristín bætir við að það sé ekki skilyrði fyrir þátttöku í Snjallræði að vera með fullmótaða hugmynd.

„Við erum að taka á móti umsóknum sem eru frá hugmyndarstigi frá frumkvöðlum eða nýsköpunarverkefni frá sveitarfélagi. Við viljum í ár leggja sérstaka áherslu á nýsköpun í heilbrigðis- og velferðartækni og því getur þetta verið kjörið tækifæri ef einhver innan viðeigandi stofnana er með hugmynd til að hrinda henni í framkvæmd.“Hægt er að sækja um á vefsíðu Klaks til 7. ágúst á klak.is/snjall­raedi.