Hugbúnaðarfyrirtækið Garden, sem þrír Íslendingar stofnuðu í Berlín fyrir fjórum árum, hefur lokið fjármögnun sem mun gera fyrirtækinu kleift að tífaldast að stærð. Hugmynd Garden gengur út á að gera forritun skemmtilega á ný.

Þórarinn Sigurðsson stofnaði fyrirtækið ásamt Jóni Eðvald Vignissyni og Eyþóri Magnússyni en hugmyndin spratt í raun upp úr samtölum þeirra um hvernig umhverfi í hugbúnaðargerð hefði breyst á síðustu árum.

„Ég er sjálfur forritari og það skemmtilegasta við að vera forritari er að sjá afraksturinn lifna við. Málið er bara að bilið á milli þessarar sköpunar og þess sem síðan verður að veruleika hefur verið að breikka á síðustu árum.“

Aðallega, að sögn Þórarins, vegna þess hve kerfin eru orðin stór og flókin.

Góðir forritarar eru dýrir. Ef þeir eru pirraðir í starfi þá finna þeir sér eitthvað annað að gera.

„Þegar ég byrjaði að forrita þá gat maður bara keyrt kerfin á fartölvunni. Séð samstundis hvernig allt virkaði. En í dag eru þetta orðnar svo margar einingar að það er alls ekki sjálfgefið að forritari geti séð afrakstur erfiðisins með einföldum hætti.“

Og þetta vill Garden leysa. Auðvelda hugbúnaðarteymum fyrirtækja að halda yfirsýn og koma í veg fyrir sóun á verðmætum.

„Það er bara ekki eins gaman að vera forritari í dag og það var hér áður fyrr. Og það er mjög hættuleg þróun því góðir forritarar eru dýrir. Ef þeir eru pirraðir í starfi þá finna þeir sér eitthvað annað að gera.“

Nú fjórum árum eftir að hugmynd þeirra félaga varð til er Garden orðið að þrjátíu manna fyrirtæki með höfuðstöðvar í Berlín. Viðskiptavinum fjölgar hratt og lausnir fyrirtækisins hafa laðað að sterka fjárfesta.

„Hugmyndin á bak við Garden gengur út á að leysa vandamál í frekar flóknum heimi. En við fórum ekkert af stað með fullar hendur fjár og það var ákveðið átak að koma þessu á koppinn, ég get alveg viðurkennt það.“

Til að færa okkur yfir á næsta fasa er ljóst að við þurfum að tífalda stærð fyrirtækisins.

Lykilatriðið hafi þó verið, segir Þórarinn, að strax í upphafi hafi sterkir fjárfestar haft mikla trú á hugmyndinni og fyrirtækinu.

„Við vorum komnir með vöru sem sem við gátum byrjað að selja árið 2021. Í framhaldinu fengum við svo inn fleiri fjárfesta og kláruðum fjármögnun.“

Í dag segir Þórarinn fyrirtækið standa á ákveðnum krossgötum. Næstu mánuðir muni skera úr um það hvort Garden springi út og hvort þeim félögum takist að láta upphaflegu hugmyndina verða að veruleika.

„Til að færa okkur yfir á næsta fasa er ljóst að við þurfum að tífalda stærð fyrirtækisins og við erum að undirbúa það stökk um þessar mundir. Við förum mjög spenntir inn í nýtt ár því við vitum að við erum með góða vöru sem leysir þetta vandamál sem við sjáum í hugbúnaðargeiranum,“ segir Þórarinn.