Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, hafa fyrir hönd ríkissjóðs undirritað viljayfirlýsingu við orkufyrirtækin Landsvirkjun, RARIK ohf., Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubú Vestfjarða, sem eigendur alls hlutafjár í Landsneti hf. um að ganga til viðræðna um kaup ríkisins á hlutum félaganna í Landsneti. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Markmið viðræðnanna verður að ná samkomulagi á árinu 2021, að því er kemur fram í tilkynningu. Í nýlegu frumvarpi um breytingar á raforkulögum er gert ráð fyrir því að eigendaskiptin hafi farið fram á miðju ári 2022.

Slík breyting á eignarhaldi Landsnets hf. hefur verið til skoðunar um langt skeið og er í samræmi við nýsamþykkta orkustefnu fyrir Ísland, „Sjálfbær orkuframtíð, Orkustefna til ársins 2050“, sem kynnt var 2. október 2020. Í orkustefnu kemur fram að mikilvægt sé að ljúka eigendaaðskilnaði flutningsfyrirtækisins þannig að því verði komið alfarið í beina opinbera eigu. Hlutlaust eignarhald er grundvöllur gegnsæis og jafnræðis á raforkumarkaði.