Félag atvinnurekenda leggur til að tvö ívilnandi úrræði fyrir fyrirtæki sem voru í gildi á síðasta ári, niðurfelling álags á vangreiddan virðisaukaskatt og tvískipting gjalddaga aðflutningsgjalda, verði endurnýjuð.

Þetta kemur fram í umfjöllun félagsins um frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra um breytingar á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurins. Þar er meðal annars lagt til að greiðsludreifing á staðgreiðslu launamanna og tryggingagjaldi, sem tekin var upp á síðasta ári, verði framlengd.

„Í greinargerð frumvarps fjármálaráðherra er vísað til þess að áframhaldandi óvissa sé í atvinnulífi landsmanna þar sem fyrir liggi að heimsfaraldur kórónuveiru dragist á langinn. Jafnframt kemur fram í greinargerðinni að ljóst sé að mörg fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri glími enn við rekstrarerfiðleika vegna faraldursins. Þetta er í fullu samræmi við þær upplýsingar, sem FA fær frá félagsmönnum sínum, sem flestir eru minni eða meðalstór fyrirtæki,“ segir í umfjöllun FA.

Í greinargerðinni sé vísað sérstaklega til mikilla áhrifa áframhaldandi óvissu á ferðaþjónustuna, þar með töldum í hótel- og flugrekstri. Undir það tekur FA í umsögn sinni, en bendir á að fyrirtæki sem þjónusta ferða- og veitingageirann með t.d. aðföng og aðkeypta þjónustu búa ekki síður við óvissu og áhrifin nái þannig langt út fyrir ferðaþjónustuna.