Hugh Short, framkvæmdastjóri bandaríska framtakssjóðsins Pt Capital, segist vilja skoða þann möguleika að fá íslenska fjárfesta inn í hluthafahóp fjarskiptafyrirtækisins Nova. Þetta kemur fram í frétt Viðskipablaðsins.

Í ágúst síðastliðnum eignaðist Pt Capital nær allt hlutafé í Nova þegar sjóðurinn keypti helmingshlut Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, í félaginu. Áður hafði Pt Capital keypt nærri helmingshlut í Nova af Novator árið 2017.

Short segir við Viðskiptabaðið að Pt Capital kjósi að hafa innlenda samstarfsaðila í sínum erlendu fjárfestingum. „Nú þegar Novator hefur selt sinn hlut teljum við að við ættum að skoða valmöguleika til að fá innlenda samstarfsaðila að borðinu. Í ljósi þess að Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Digital Colony á óvirkum fjarskiptainnviðum okkar og Sýnar, þá munum við skoða alla þá kosti sem standa til boða í leið okkar að því markmiði,“ segir hann. Skráning á hlutabréfamarkað komi meðal annars til greina.

Í fréttinni er rifjað upp að árið 2016 hafi staðið til að íslenskir fjárfestar myndu leggja til um 2,5 milljarða króna til að taka þátt í kaupum Pt Capital á Nova. Þau viðskipti gengu ekki eftir og úr varð að Pt Capital keypti einungis helmings hlut í félaginu á þeim tíma.