Íslenski sjávarklasinn hefur gert tilboð í húsnæði sem átti að nota undir álver Norðuráls í Helguvík. Hugmyndin er að frumkvöðlafyrirtæki í sjávarútvegi sem vilja fara í fiskeldi eða þörungarækt og vantar ekki bara skrifstofuaðstöðu heldur 2 til 3 þúsund fermetra til að hefja starfsemi fái þar aðstöðu. Að sögn Þórs Sigfússonar, stofnanda Íslenska sjávarklasans, hefur fyrirtækið áhuga á að nota tækifærið til að búa til klasastarfsemi í leiðinni sem gæti eflt allt Reykjanesið og gefið fyrirtækjum tækifæri til þróunar og nýsköpunar og jafnvel að búa í litlu klasasamfélagi, í Helguvík. Þetta kom fram í viðtali við Þór í Markaðnum á Hringbraut í gærkvöldi.

,,Við viljum ná þessum hringrásaráhrifum þannig að úrgangur frá einu fyrirtæki geti orðið orka fyrir annað fyrirtæki. Það er einmitt það sem er að gerast í þessum grænu iðngörðum um allan heim þar sem er slík samtvinnun fyrirtækja sem okkur þykir mjög spennandi,“ segir Þór.

Hann segir einnig: ,,Við höfum verið í góðu sambandi við bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ og Reykjanesbæ og Norðurál og Reykjaneshöfn. Við kynntum þessa hugmynd lítillega í okkar netverki fyrir skömmu og fengum strax mjög góð viðbrögð,“ segir Þór.