Hópur rekstraraðila hótela og gististaða vill að ráðningarstyrk stjórnvalda verði breytt á þá leið að fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir 60 til 100 prósenta tekjufalli frá 15. mars 2020 og fram til loka ársins verði gert kleift að sækja um styrkina.

Þau fyrirtæki sem hafi tekið slaginn og reynt að halda hluta starfsemi sinni gangandi í gegnum faraldurinn hafi þannig sömu tækifæri til að sækja um styrkina, en ekki bara þau fyrirtæki sem stöðvuðu sína starfsemi og sögðu upp öllu starfsfólki.

Jafnframt er lagt til að þeir starfsmenn sem eru á hlutabótum verði þá færðir yfir á ráðningarstyrk. Hlutabótaleiðin var nýlega framlengd um nokkra mánuði, en tekur þó þeim breytingum að starfshlutfall megi ekki vera meira en 50 prósent svo að hægt sé að sækja bæturnar.

„Samkvæmt gildandi reglum þarf að segja starfsmanni upp og hann að vera kominn á atvinnuleysisskrá til að hægt sé að sækjast eftir starfskröftum hans með nýtingu ráðningarstyrkja. Þannig má segja að núverandi útfærsla mismuni þeim sem hafa lagt mikið á sig til að halda starfsfólki á erfiðum tímum í rekstri, gagnvart þeim sem lokuðu alveg,“ segir Ragnar Bogason, framkvæmdastjóri Hótel Selfoss.

Ragnar bendir einnig á að það skilyrði að einstaklingur sé á atvinnuleysisskrá svo að hægt sé að sækja um ráðningarstyrk búi til hvata hjá fyrirtækjum til að segja upp fólki og ráða það svo aftur inn þegar það er formlega orðið atvinnulaust. „Þótt hlutabótaleiðin hafi reynst mikilvægt úrræði er hún með sínu 50 prósenta þaki orðin takmarkandi í rekstri aðila í ferðaþjónustu í dag og skerðir möguleikann á því að halda starfsmönnum í fullu starfi,“ segir Ragnar jafnframt.

Hann nefnir að margir starfsmenn innan ferðaþjónustugeirans séu eðlilega orðnir langþreyttir á því að vera á skertum tekjum: „Fyrirtækin eru farin að finna fyrir aukinni óþreyju hjá starfsfólki að ná ekki fullum launum. Að óbreyttu er það hins vegar erfitt hjá fyrirtækjum sem eru með 10-40 prósent af tekjum samanborið við árið 2019 að borga full laun og líklegt að þau muni huga að því að fækka frekar í hópi starfsfólks á næstu vikum og mánuðum. Til dæmis með því að stytta opnunartíma eða leggja niður ákveðnar einingar, svo sem veitingarekstur.

Halda má því fram að á meðan fáir sem engir erlendir ferðamenn eru að koma til landsins sé skynsamlegt að hafa einungis opið um helgar. Það er hins vegar skammsýn hugsun, því ef allir í þessum rekstri færu þá leið þá mun það hafa áhrif á trúverðugleika Íslands sem áfangastaðar á komandi misserum og valda því að erfiðara verður að trekkja kerfið í gang þegar ferðalög hefjast á ný,“ segir Ragnar Bogason