Nýsköpunarfyrirtækið Nordic Wasabi sérhæfir sig í ræktun á hágæða wasabi rót. Fyrirtækið er eitt af þeim sex fyrirtækjum sem tekur þátt í nýsköpunarhraðlinum Til sjávar og sveita í ár.

„Við stofnuðum fyrirtækið Jurt árið 2015 en hugmyndin kviknaði í verkfræðinámi við Háskóla Íslands. Við vonumst til þess að þátttaka okkar í Til sjávar og Sveita skili okkur aukinni þekkingu og nýjum tólum til þess að halda áfram uppbyggingu á vörumerki okkar á erlendum mörkuðum. Við höfum byggt upp útflutning á okkar vörum síðustu ár og höfum komið vörunni inn á bestu veitingahús í heimi,“ segir Ragnar Atli Tómasson, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, og bætir við að í framleiðslunni nýti þeir sér sérstöðu Íslands.

„Í framleiðslunni nýtum við okkur þær auðlindir sem Ísland hefur upp á að bjóða. Ferska vatnið okkar er það hreinasta í heimi og við eigum mestu vatnsbirgðir á íbúa í heimi. Síðan má ekki gleyma rafmagninu og jarðvarmanum sem er allt úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Það sem við erum að gera er að búa til alveg nýja útflutningsvöru. Við erum fyrsta fyrirtækið til að flytja út grænmeti á Íslandi. Við höfum verið að rækta grænmeti á Íslandi og getum í raun ræktað allt sem okkur dettur í hug í gróðurhúsum. Við höfum ræktað kál, tómata og paprikur en við áttuðum okkur snemma í ferlinu á því að við þurfum að gera eitthvað annað en það sem allir aðrir eru að gera því við erum ekkert að fara að keppa í verðum á innlenda markaðnum. Við erum að keppa í gæðum og viðskiptavinir okkar eru veitingastaðir í Evrópu,“ segir Ragnar og bætir við að það sé mikill munur á því ferska Wasabi sem þeir bjóða upp á og því hefðbundna sem fá má á sushi-stöðum.

„Wasabi plantan vex í fjalllendinu í Japan og er talin vera erfiðasta planta í heiminum til að rækta en við höfum náð að rækta hana í gróðurhúsum. Það wasabi sem fólk fær með sushi er í raun ekki eiginlegt wasabi því það er búið til úr gerviefnum. Við ræktum aftur á móti ferskt wasabi frá þessari japönsku plöntu.“

„Það er mjög mikilvægt að rífa rótina niður á ákveðinn hátt því annars kemur ekki rétt bragð. Þessi rót er ekki eins og gulrót sem hægt er bara að bíta í heldur þarf að útbúa hana á sérstakan hátt.“ - Óli Hall sölu- og markaðsstjóri Nordic Wasabi

Óli Hall, sölu- og markaðsstjóri Nordic Wasabi, segir að það sé mikill bragðmunur á fersku wasabi og því sem er búið til úr gerviefnum. „Þetta er einfaldlega allt önnur vara. Miklu hreinna bragð því um er að ræða ferskt grænmeti en þetta er líka sterkt eins og eftirlíkingin með góðu eftirbragði,“ segir Óli og bætir við að það sé mikilvægt að matreiða rótina á réttan hátt.

„Það er mjög mikilvægt að rífa rótina niður á ákveðinn hátt því annars kemur ekki rétt bragð. Þessi rót er ekki eins og gulrót sem hægt er bara að bíta í heldur þarf að útbúa hana á sérstakan hátt.“

Aðspurður hvernig fyrirtækinu hafi gengið segir Óli að starfsemin hafi gegnið vonum framar.

„Þetta er búið að ganga virkilega vel og við erum ekki aðeins að sjá áhuga hjá veitingastöðum heldur erum við líka að sjá sívaxandi áhuga hjá einstaklingum. Fólki sem er að elda heima og vil prófa eitthvað nýtt. Við erum með vefverslun þar sem við seljum allar þær græjur sem til þarf til að búa til hágæða wasabi. Gjafaöskjurnar okkar eru vinsæl tækifærisgjöf en þær innihalda tól til wasabi gerðar og wasabi rótina sjálfa. Við seldum mikið af þessu fyrir jólin í fyrra og bjóðum aftur upp á þetta í ár. Þetta er í raun upplifun sem við erum að selja.“

Ragnar bætir við að þeir hafi einnig opnað verslun á Skólavörðustíg 40 þar sem hægt er að nálgast vörurnar okkar og fá fræðslu um wasabi rótina og matargerð í tengslum við hana.