Neyt­enda­sam­tökin, SAF (Sam­tök ferða­þjónustunnar) og SVÞ (Sam­tök verslunar og þjónustu) vilja að fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra beiti sér fyrir því að felldir séu niður tollar sem lagðir eru á við inn­flutning á frönskum kar­töflum.

Í til­kynningu frá sam­tökunum segir að í ljósi þess að fram­leiðsla franskra kar­taflna hefur verið hætt á Ís­landi sé ekki lengur til staðar þær verndar­for­sendur sem liggja til grund­vallar 46–76 prósent verð­tolli sem lagður er á við slíkan inn­flutning.

Þykkva­bæjar til­kynnti í síðasta mánuði að þau myndu hættu fram­leiðslu á frönskum kar­töflum eftir að hafa gert það í 36 ár. Þau voru eina fyrir­tækið sem fram­leiddu ís­lenskar franskar kar­töflur.

Í til­kynningu frá sam­tökunum þremur segir að hags­munir neyt­enda, verslana og ferða­þjónustunnar fari saman þegar kemur að niður­fellingu tollanna.

„Niður­fellingin kemur neyt­endum til góða þar sem hún stuðlar að lægra vöru­verði. Hún kemur versluninni til góða þar sem hún veitir henni færi á að kaupa franskar kar­töflur frá fleiri ríkjum en þeim sem falla undir gildandi frí­verslunar­samninga og stuðlar þannig bæði að aukinni verð­sam­keppni og bættu fram­boði. Veitinga­menn selja tölu­vert af frönskum kar­töflum til við­skipta­vina sinna og ætti niður­fellingin að veita þeim tæki­færi til verð­lækkana sem munu í ein­hverjum mæli bæta sam­keppnis­stöðu ís­lenskrar ferða­þjónustu gagn­vart er­lendri,“ segir í til­kynningunni til að sýna fram á kosti þess að af­nema verndar­tollana.

300 milljónir í tekjur

Þar kemur enn fremur fram að tekjur ríkisins af tollinum virðist hafa numið 300 milljónum króna á síðasta ári sem er sjö prósent allra toll­tekna það ár, en að­eins 0,04 prósent heildar­skatt­tekna ríkisins 2021.

„Það er ljóst að tekjurnar ríða ekki bagga­muninn þegar að tekju­öflun ríkisins kemur. Hins vegar skiptir hver króna máli fyrir mörg heimili í landinu um þessar mundir og ætti niður­fellingin að hafa já­kvæð á­hrif á verð­bólgu­þróun,“ segir að lokum og að sam­tökin hafi farið fram á það að ráð­herra svari erindi þeirra.