Nýsköpunarumhverfið hefur breyst verulega mikið á undanförnum árum. Þetta segir Fida Abu Libdeh, stofnandi og framkvæmdastjóri GeoSilica en hún er gestur Markaðarins sem sýndur verður klukkan 19:00 í kvöld á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.

GeoSilica var stofnað árið 2012 og vinnur fæðubótaefni úr kísil.

„Ég vildi óska þess að ég væri að stofna fyrirtæki í dag. Maður er að fá fræðslu og handleiðslu bæði frá stofnunum og einkareknum fyrirtækjum eins og Icelandic StartUp, KLAK, FKA nýsköpun og slíku. Þetta er allt öðruvísi umhverfi en var fyrir nokkrum árum,“ segir Fida og bætir við að auðvelt sé að heyra í öðrum frumkvöðlum og læra af þeirra reynslu.

Aðspurð hvort nýsköpunarumhverfið hér á landi standist erlendan samanburð svarar hún því játandi.

„En það er alltaf hægt að gera betur. Ríkisstjórnin styður mjög vel við sprotafyrirtæki sem eru að taka sín fyrstu skref en það er kannski kominn tími til að leggja áherslu á fyrirtæki sem eru lengra komin.“

Fida segir að mikilvægt sé að ýta undir fjárfestingu bæði innlenda og erlenda.

„Það þyrfti líka að hækka styrktarupphæðirnar. Þegar fyrirtæki er komið í vaxtarfasa þá eru smáar upphæðir ekkert að hjálpa. Til dæmis ef þú ætlar að markaðssetja vörurnar í Evrópu þá erum við að tala um að þú þurfir 200-300 milljónir.“

Fida segir að teymið og þrautseigjan sé það sem hafi verið uppskriftin að velgengni GeoSilica. „Það er fyrst og fremst að hafa gott teymi sem trúir á hugmyndina. Það skilar sér.“