„Eftir lengsta hag­vaxtar- og stöðug­leika­skeið á lýð­veldis­tíma stöndum við hér og nú frammi fyrir gjör­breyttu lands­lagi í efna­hags- og at­vinnu­málum,“ sagði Árni Sigur­jóns­son, for­maður Sam­taka iðnaðarins, í ræðu sem hann flutti á Iðn­þingi í dag. Árni sagði að ó­veðurs­skýin hefðu verið farin að hrannast upp í lok síðasta árs en far­aldurinn hafi breytt for­sendum á alla kanta. „Niður­staðan er víga­leg kreppa og við höfum verk að vinna.“

Fimmta hvert starf í iðnaði

Árni sagði að iðnaður hefði lagt mikið af mörkum til endur­reisnar á liðnum ára­tug eftir síðustu kreppu, en ein­hverra hluta vegna hefði það ekki farið hátt.

„Eitt af hverjum fimm störfum er í iðnaði, ís­lenskur iðnaður skapar ríf­lega fimmtung lands­fram­leiðslunnar með beinum hætti og 40% til út­flutnings. Þriðjungur vaxtar eftir hrun átti sér stað í iðnaði. Ís­lenskur iðnaður lagði þannig meira til endur­reisnarinnar heldur en stærð hans gaf til kynna og iðnaðurinn getur á enn kröftugri hátt verið drif­kraftur við­spyrnu hag­kerfisins nú. Til þess þurfa stjórn­völd og at­vinnu­líf að taka höndum saman og vinna hratt að upp­byggingu og bættum skil­yrðum. Nýjar út­flutnings­greinar og aukin verð­mæti með ný­sköpun í rót­grónum greinum þurfa að knýja vöxtinn til að við­halda þeim lífs­kjörum sem við höfum búið við.“

Óþrjótandi auðlind

Árni sagði að verk­efni næstu þriggja ára­tuga væri að skapa 60 þúsund ný störf á Ís­landi, eða 40 störf í hverri viku. Það sé hægt en þá þurfi allir að leggjast á eitt. „Rétta leiðin er skýr í okkar huga. Virkjum hug­vitið, þessa ó­þrjótandi auð­lind okkar allra, í auknum mæli til verð­mæta­sköpunar. Byggjum fleiri stoðir því ekkert hús er traustara en grunnurinn sem það stendur á! Það sama gildir um hag­kerfið sem leggur grunn að lífs­gæðum okkar.“

Árni sagði að á sama tíma væri mikil­vægt að hlúa að því sem fyrir er og hefur skapað frjó­saman jarð­veg fyrir næsta tíma­bil vaxtar, allir geirar at­vinnu­lífsins skipti máli sér­stak­lega þar sem ís­lenskt hag­kerfi er lítið.

„Hingað til hefur okkur ekki gengið nógu vel að búa til nógu mörg stór, stöndug og líf­væn­leg fyrir­tæki með reglu­bundnum hætti – sem er einn mæli­kvarðinn um árangur ný­sköpunar. Við verðum því að vera ó­hrædd við að hugsa stórt, bæði til skemmri og lengri tíma. Á­kvarðanir og að­gerðir næstu 12 til 18 mánaða munu lík­lega varða leiðina fyrir okkur þessa næstu ára­tugi. Við megum því engan tíma missa.“