Oatly-vörurnar eru með vin­sælli vegan hafra­mjólkur­vörum á Ís­landi og um heim allan. Undan­farið hefur borið á um­ræðum í Face­book-hópnum Vegan Ís­land um skort á Oatly vörum á Ís­landi og fólk jafn­vel aug­lýst eftir vörunum til að kaupa þar inni.

Að sögn Önnu Maríu Árna­dóttur, markaðs­stjóra Inn­nes, sem flytur vörurnar inn, hefur verið skortur á bæði Oatly iKaf­fe (gráu) og nokkrum öðrum Oatly vörum á ís­lenska markaðinum undanfarið.

„Alls er Inn­nes er með 21 vöru frá Oatly í vöru­vali og af þeim eru sex vörur í vöntun á lager hjá okkur í dag, en vörur geta fengist í verslunum þó Inn­nes vanti þær á lager. Það vantar aðal­lega Oatly iKaf­fe og Oatly Hafra­mjólkina 1l . Við erum að fá sendingar í hverjum mánuði og von á sendingum í næsta mánuði, en vegna skortsins vitum við ekki hvaða vörur verða í þeim sendingum vitum við ekki fyrr en nær dregur,“ segir Anna María.

Hún segir á­stæðu skortsins vera þá að Inn­nes hefur ekki fengið af­greiddar allar Oatly vörurnar undan­farið, en fram­boð á vörunum er minna en eftir­spurn vegna mikillar sölu­aukningar undan­farið sem og fram­leiðslu­ann­marka hjá Oatly. Hún segir að Oatly sé að vinna að því að auka fram­leiðslu­getu sína.

Spurð um hvaða ann­markar þetta eru segir hún að fram­leiðslu­línur Oatly hafi ekki getað keyrt á fullum af­köstum og það sé, meðal annars, á­stæðan fyrir ó­nægu fram­boði á Oatly-vörunum.

„Oatly er að vinna að því að auka fram­boðið með því að auka fram­leiðslu­getuna en sú vinna hefur ekki gengið sam­kvæmt á­ætlunum þar sem heims­far­aldurinn hefur haft þau á­hrif að fram­kvæmdum hefur seinkað. Oatly hefur þá enn fremur gripið til þeirra ráð­stafana að hætta fram­leiðslu á minnst vin­sælu vörunum og hvíla aðrar tíma­bundið til að auka fram­leiðslu­af­köstin á vin­sælli vörunum eins og til dæmis iKaf­fe,“ segir Anna María.

Eftirspurnin meiri en framboðið

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur upp. Hefur gerst nærri reglu­lega frá 2018. Er ein­hverra breytinga að vænta með það?

„Oatly hefur aukið fram­leiðslu­getuna sína síðan 2018 en á­fram­haldandi vin­sældir og vöxtur Oatly hafra­varanna veldur því að eftir­spurn er meiri en fram­boð. Oatly er að vinna í því að auka fram­leiðslu­getuna þannig að vonandi fáum við þær vörur sem eru í vöntun til landsins sem fyrst,“ segir Anna María.

Spurð hvort um sé að ræða sér­ís­lenskan skort segir Anna María það ekki til­fellið. Allir markaðir líði sama skort sam­kvæmt þeirra upp­lýsingum. Hún segir að neyt­endur hafi reglu­lega sam­band við þau með bæði á­bendingar og fyrir­spurnir og svo viti þau til þess að neyt­endur séu dug­legir að deila upp­lýsingum um Oatly-vörurnar, inn á hópa eins og Vegan Ís­land.

„Við hjá Inn­nes vonum að þær Oatly vörur sem eru í vöntun muni fást sem fyrst aftur á Ís­landi,“ segir Anna María að lokum.