Ómar Benediktsson, fyrrverandi varaformaður stjórnar Icelandair Group, hefur viðurkennt fyrir fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands að hafa brotið markaðsmisnotkunarákvæði verðbréfaviðskiptalaga með tilkynningu um kaup félags í síns eigu á bréfum í flugfélaginu í ágúst í fyrra.

Hann hefur fallist á að greiða 850 þúsund krónur í sekt.

Greint er frá samkomulagi Ómars og fjármálaeftirlitsins í tilkynningu sem eftirlitið birti á vef Seðlabankans í dag.

Greint var frá viðskiptum félags Ómars - NT - með hlutabréf í Icelandair Group í tilkynningu til Kauphallarinnar þann 22. ágúst í fyrra. Nam fjárhæð viðskiptanna nærri áttatíu milljónum króna en af tilkynningunni mátti draga þá ályktun að með viðskiptunum hefði Ómar keypt bréf í flugfélaginu - í gegnum NT - og með því tekið fjárhagslega áhættu sem því nam.

Viku síðar var önnur tilkynning um viðskiptin birt í Kauphöllinni en þar var tekið fram að NT, sem væri að fullu í eigu Ómars, hefði verið á meðal hluthafa í Traðarhyrnu sem væri eignarhaldsfélag um eignarhlut í Icelandair Group. Eignarhaldsfélagið hefði verið mótaðili NT í viðskiptunum og að NT hefði fengið hlutabréf í Icelandair Group í skiptum fyrir bréf sín í Traðarhyrnu.

Eftir viðskiptin væri NT ekki lengur hluthafi í Traðarhyrnu.

Af síðari tilkynningunni var þannig ljóst að Ómar hefði ekki verið að auka fjárhagslega áhættu sína með umræddum viðskiptum NT með bréf í flugfélaginu, ólíkt því sem lesa mátti út út fyrri tilkynningu, að sögn fjármálaeftirlitsins.

Fyrri tilkynningin, sem birtist þann 22. ágúst, fól í sér brot gegn markaðsmisnotkunarákvæði verðbréfaviðskiptalaga, að mati fjármálaeftirlitsins, þar sem í henni fólst dreifing á upplýsingum sem gáfu eða voru líklegar til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um hlutabréf í Icelandair Group enda hafi Ómar vitað eða mátt vita að upplýsingarnar voru rangar eða misvísandi.

Í gagnsæistilkynningu fjármálaeftirlitsins kemur fram að eftirlitið og Ómar hafi gert með sér samkomulag um sátt vegna brotsins þann 12. mars síðastliðinn.

Í samkomulaginu felst að Ómar viðurkennir að hafa brotið gegn 1. máls. 3. tl. 1. mgr. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti og fellst á að greiða sekt að fjárhæð 850 þúsund krónur.

Þá staðfestir hann jafnframt að hann hafi upplýst að fullu um málsatvik sem samkomulagið varðar. Auk þess hafi hann gripið til ráðstafana til þess að stuðla að því að atvik sem þetta eigi sér ekki stað á ný.