VÍS hagnaðist um 1,9 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi ársins samanborið við tæplega tveggja milljarða króna tap á sama tíma fyrir ári.

Tekjur af fjárfestingastarfsemi voru tæplega 2,5 milljarðar króna á ársfjórðungnum samanborið við 162 milljón króna tap á sama tíma fyrir ári.

„Árið 2021 fór vel af stað í fjárfestingunum ─ en árangurinn í fjórðungnum er sá annar besti frá skráningu félagsins. Fjárfestingatekjur ársfjórðungsins námu 2,5 milljörðum króna eða 5,8 prósent nafnávöxtun yfir tímabilið. Gott gengi skráðra hlutabréfa skýra stærstan hluta góðrar afkomu en hlutabréfasafn félagsins hækkaði um 17,6 prósent. Fjárfestingaeignir í lok fjórðungsins voru 42 milljarðar króna. Ég er stoltur af góðri afkomu á fjórðungnum ─ en arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli er langt umfram markmið félagsins,“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Tap af vátryggingarekstri nam 405 milljónum króna á tímabilinu samanborið við 1,4 milljarða tap á sama tíma í fyrra.

„Almennt og yfirleitt eru fyrstu þrír mánuðir ársins í tryggingarekstri tjónaþungir ─ en gott tíðarfar og jákvæð áhrif faraldursins settu sitt mark á fjórðunginn. Þó hafa einstaka tjónsatburðir neikvæð áhrif á fjórðunginn sem gerir það að verkum að samsett hlutfall fjórðungsins er 108 prósent. Á sama tímabili í fyrra var samsetta hlutfallið 126,5 prósent ─ sem skýrðist þá að mestu leyti af styrkingu tjónaskuldar,“ segir Helgi.

Iðgjöld tímabilsins voru 5,5 milljarðar króna í samanburði við 5,6 milljarða á sama tíma fyrir ári.

Breytt upplýsingagjöf

VÍS mun hverfa frá núverandi formi afkomuspár. „Upplýsingagjöf um fjárfestingaeignir í ársfjórðungsuppgjörum verður aukin en fallið verður frá mánaðarlegum tilkynningum um samsett hlutfall og ávöxtun fjáreigna. Samhliða hefur verið ákveðið að birta ekki horfur fyrir afkomu af fjárfestingastarfsemi félagsins. Trygginga- og fjárfestingastarfsemi er í eðli sínu sveiflukennd og er það mat félagsins að aukin ársfjórðungsleg upplýsingagjöf sé hentugri leið til að upplýsa fjárfesta um stöðu félagsins með auknum sýnileika á eignasafnið frekar en mánaðarleg upplýsingagjöf,“ segir í tilkynningunni.