TM samstæðan hagnaðist um 979 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 251 milljón tap eftir skatta á sama tíma fyrir ári. Tapið í fyrra má að öllu leyti rekja til fjárfestingastarfsemi.

Framlegð vátrygginga var jákvæð um 457 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi. Hagnaður af fjármögnunarstarfsemi nam um 143 milljónum króna.

„Afkoma TM samstæðunnar á þriðja ársfjórðungi þróast mjög til hins betra frá fyrra ár,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM ,í tilkynningu. „Sérstaklega ánægjulegt er að sjá meira jafnvægi milli þriggja stoða starfseminnar, vátrygginga, fjármögnunar og fjárfestinga.“

Hann segir að samsett hlutfall vátrygginga hafi verið 89,2 prósent á fjórðungnum og hlutfallið batni nokkuð frá fyrra ári. Það var 94,9 prósent á sama tíma fyrir ári, samkvæmt eldri fréttum.

„Munar þar mestu um vægi stórtjóna, sem var mun meira á síðasta ári. Iðgjöld tímabilsins lækka nokkuð, en samdráttur í tjónum er meiri og niðurstaðan því bætt samsett hlutfall og aukin framlegð af vátryggingum milli ára,“ segir Sigurður.

„Ávöxtun fjárfestingaeigna á fjórðungnum nam 2,5 prósent og munar þar mestu um mjög góða ávöxtun af skráðum hlutabréfum og góða ávöxtun af eignatryggðum skuldabréfum,“ segir hann. Í tilkynningu segir að á móti vegi að afkoma af ríkisskuldabréfum og öðrum verðbréfum var slök.

Fjárfestingatekjur námu 684 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi.

Á fjórðungnum varð töluverð breyting á skuldabréfasafni félagsins. Þannig voru löng eignatryggð skuldabréf seld og í staðinn fjárfest í lausafjársjóðum og ríkisskuldabréfum. Líftími skuldabréfasafnsins styttist þannig um rúmt ár og var 5,2 ár í lok fjórðungsins.

Sigurður segir að afkoma Lykils fjármögnunar hafi verið með ágætum á fjórðungnum og mjög góður gangur hafi verið í nýjum bílalánum undanfarna mánuði.

Lykill hagnaðist um 143 milljónir króna borið saman við 111 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Afkoma Lykils fyrstu níu mánuði ársins er lituð af vaxtalækkunum, hagræðingaraðgerðum og ekki síst COVID-19 faraldrinum og má rekja megnið af virðisrýrnun útlána á tímabilinu, samtals 675 milljónir króna, sem raki er til COVID-19..

Í lok september var tilkynnt um viðræður Kviku banka og TM um sameiningu. „Viðræðurnar hafa gengið vel og stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir á næstu vikum,“ segir hann.