Sjóvá hagnaðist um 1.548 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar tapaði tryggingafélagið 630 milljónum króna á sama tíma fyrir ári.

Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta var 578 milljónir króna á fjórðungnum. Á sama tíma fyrir ári nam sá hagnaður 47 milljónum króna.

Hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrir skatta var 1.184 á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar var 680 milljón króna tap af þeirri starfsemi fyrir ári.

Samsett hlutfall hefur lækkað í 94,5 prósent á fjórðungnum úr 105,2 prósentum á sama tíma fyrir ári.

Ávöxtun fjárfestingarsafns félagsins var 4,2 prósent á öðrum ársfjórðungi ársins en var neikvæð um 1,3 prósent í fyrra. Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá, segir í tilkynningu að ávöxtun eignasafns félagsins hafi verið umfram væntingar á fyrstu sex mánuðum ársins. Góð afkoma sé bæði af skráðum hlutabréfum og skuldabréfum.

„Afkoma á fyrstu 6 mánuðum ársins nam 2.601 milljónum króna og eru fjárfestingarstarfsemi og vátryggingarekstur að skila góðri afkomu og mikilli bætingu á milli ára. Á sama tíma fyrir ári var afkoman neikvæð af fjárfestingarstarfsemi auk þess sem nokkur stór tjón höfðu haft neikvæð áhrif á vátryggingarekstur og ýkir því sveiflur á milli ára. Yfir skemmri tímabil eru sveiflur sem þessar algengar í vátryggingarekstri.

„Áframhald er á góðum vátryggingarekstri með 15,5 prósent vexti eigin iðgjalda frá sama tíma og í fyrra.“

Áframhald er á góðum vátryggingarekstri með 15,5 prósent vexti eigin iðgjalda frá sama tíma og í fyrra. Vöxturinn er bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Þessi kröftugi vöxtur undanfarin ár hefur átt sér stað án þess að hann kalli á sérstakan útgjaldaauka og hefur þar með haft jákvæð áhrif á kostnaðarhlutfall sem lækkar umtalsvert og er nú 20 prósent fyrir fyrstu 6 mánuði ársins,“ segir Hermann.

Horfur félagsins hafa verið hækkaðar úr 4,2 milljörðum króna hagnaði fyrir skatta í 4,3 milljarða hagnaði fyrir skatta á árinu 2019.

Áfram er gert ráð fyrir að samsett hlutfall verði um 95 prósent á árinu 2019.

Horfur um afkoma fyrir skatta til næstu 12 mánaða (3F 2019 – 2F 2020) hafa verið lækkaðar í þrjá milljarða króna úr 3,8 milljörðum króna. Skýringin er að nýliðinn annar ársfjórðungur byrjaði sérlega vel og tóku spár mið af því auk þess sem vextir hafa nú lækkað. Horfur um samsett hlutfall til næstu 12 mánaða er óbreytt í 95 prósent, segir í tilkynningu.