Hagnaður af rekstri Lýsis var 567 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við 99 milljónir árið 2019. Bætta afkomu má fyrst og fremst rekja til lægra gengis krónunnar á árinu 2020 samanborið við 2019 sem og aukinnar hagræðingar í framleiðslu. Þetta kemur fram í ársreikningi Lýsis fyrir síðasta ár.

Tekjuaukning ársins hjá Lýsi var 23,6 prósent og hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) jókst um 24,4 prósent. Heildartekjur á síðasta ári voru um 12,4 milljarðar króna, samanborið við rúma 10 milljarða árið 2019. Fram kemur í skýrslu stjórnar að um 96 prósent af veltu fyrirtækisins sé í erlendri mynt.

Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins um 13,4 milljörðum, bókfært eigið fé í árslok 2020 voru 3,4 milljarðar og er eiginfjárhlutfall félagsins 25,4 prósent.

Stærsti, einstaki hluthafi Lýsis er Ívar ehf sem heldur á um 83 prósenta hlut. Ívar ehf meirihlutaeigu Katrínar Pétursdóttur, forstjóra Lýsis. G fjárfestingafélag á ríflega fjórðungshlut í Ívari ehf, en eigandi G fjárfestingafélags er Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Lýsis.