Öll hótel félagsins hafa nú verið opnuð eftir að nokkur þeirra höfðu áður verið lokuð í um 2 ár vegna Covid-19 faraldursins, sem skiljanlega hafði veruleg áhrif á rekstur þess.

Samkvæmt uppgjöri Íslandshótela fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2022 var tap af rekstri félagsins upp á 417 milljónir króna en mikill viðsnúningur í rekstri með fjölgun ferðamanna og hámarksnýtingu hótelrýma í sögulegu samhengi gefur góð fyrirheit fyrir síðari hluta rekstrarársins. Reiknað er með mikilli uppsveiflu á þriðja ársfjórðungi, enda ferðamennska í hámarki og bókanir sjaldan verið betri.

Efnahagslegur styrkur Íslandshótela er mikill, en bókfært eigið fé samstæðunnar nam 19,3 milljörðum króna í lok tímabilsins og eignir þess 57 milljörðum króna, að mestu fólgnar í þeim fasteignum sem starfsemin fer fram í.

Íslandshótel er leiðandi afl í íslenskri ferðaþjónustu og reka 18 hótel með 1963 herbergi á lykilstaðsetningum um land allt.