Eimskip hagnaðist um 0,8 milljónir evra, jafnvirði 123 milljóna króna, á fjórða ársfjórðungi 2020 samanborið við 6,4 milljón evra tap, jafnvirði 981 milljón króna, á sama ársfjórðungi árið 2019.

Tekjur námu 175,7 milljónum evra og hækkuðu um 0,1 milljón evra frá sama ársfjórðungi 2019. „Magn í áætlunarsiglingum jókst um 10,2 prósent sem hafði jákvæð áhrif á tekjur. Á móti hafði veiking íslensku krónunnar og Bandaríkjadals neikvæð áhrif á tekjur til lækkunar og sama gerði lækkun olíuverðs,“ segir tilkynningu.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) námu 14,9 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi 2020 samanborið við 11,2 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs.

Kostnaður nam 160,7 milljónum evra sem er lækkun um 3,6 milljón evra milli tímabila sem skýrist að mestu af hagræðingaraðgerðum og veikingu íslensku krónunnar.

Launakostnaður lækkaði um 4,8 milljónir evra eða 14,3 prósent og þar af um 1,8 milljónir evra vegna hagræðingaraðgerða.

„Ég er nokkuð ánægður með niðurstöðu ársins 2020 sem var krefjandi á margan hátt,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips. „Við héldum áfram að einblína á kjarnastarfsemi félagsins og arðsemi jókst á seinni hluta ársins í kjölfar umfangsmikilla hagræðingar aðgerða. Það gekk vel á Alþjóðasviðinu okkar sem og í innanlands starfsemi félagsins. Þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir og umbætur í siglingakerfi félagsins er afkoman af þeim þætti rekstrarins enn undir væntingum.“

Hagnaður ársins 2020 nam 4,5 milljónum evra samanborið við hagnað að fjárhæð 1,0 milljón evra árið 2019.