Velta Iceland Seafood fyrstu níu mánuði ársins jókst um 14 prósent frá síðasta ári og nam 342,8 milljónum evra. Tap á tímabilinu nam 5 milljónum evra en í fyrra var hagnaður upp á 5,6 milljónir.

Á þriðja ársfjórðungi nú hagnaðist félagið um 2,3 milljónir evra sem er viðsnúningur frá fyrri helmingi ársins.

Hagnaður var af starfseminni í Suður-Evrópu og stafaði það eingöngu af hærra afurðaverði vegna þess að í magni dróst sala eilítið saman.

Í Norður-Evrópu var reksturinn í jafnvægi í Írlandi en í Bretlandi var tap af rekstrinum líkt og verið hefur undanfarin misseri, raunar margfaldaðist tapið milli ára og nam 9,2 milljónum evra fyrstu níu mánuði ársins.

Stjórn Iceland Seafood tilkynnti í dag að fyrirtækið myndi hverfa af Bretlandsmarkaði, ekki sé lengur réttlætanlegt að halda .þeirri starfsemi áfram í ljósi óviðunandi afkomu.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood:

„Árið 2022 hefur reynst krefjandi. Ár, þegar Búist var við að Covid yrði að baki og ástandið yrði aftur eðlilegt – breyttist í ár sem einkenndist af stríði í Evrópu, löskuðum aðfangakeðjum, miklum verðsveiflum á hrávörumarkaði, matvælamarkaði og hækkandi fjármagnskostnaði. Við eigum von á áframhaldandi mótvindi sem kallar á erfiðar ákvarðanir og aðlögun. Við horfum bjartsýn til framtíðar og erum í góðri stöðu á okkar lykilmörkuðum með virðisaukandi starfsemi í Evrópu. Við verðum hins vegar að laga okkur að breyttum verukeika og yfirgefum því breska markaðinn vegna ófullnægjandi afkomu þar. Þetta er erfið ákvörðun en ég eer sannfærður um að hún er rétt.“