Viðsnúningur varð á rekstri auglýsingastofunnar Pipar\TWBA á árinu 2019. Félagið hagnaðist um 52 milljónir króna í fyrra samanborið við 29 milljónir króna tap árið áður. Tekjurnar drógust saman um þrjú prósent á milli ára og námu 555 milljónum króna í fyrra.

Launakostnaður dróst saman um 76 milljónir á milli ára eða 18 prósent og var 358 milljónir árið 2019. Fyrirtækið nýtur jafnframt góðs af því að áhrif dótturfélaga skiluðu 22 milljónum króna í hagnað en á sama tíma fyrir ári skilaði sá liður sjö milljóna króna tapi. Verðmætasta dótturfélag Pipars\TWBA er birtingarhúsið Pipar Media.

Eigið fé Pipars\TWBA var neikvætt um fimm milljónir króna við árslok en árið áður var það neikvætt um 83 milljónir króna. Hlutafé auglýsingastofunnar var aukið um 26 milljónir króna í fyrra.

Stærstu hluthafar Pipars\TWBA eru Guðmundur Hrafn Pálsson framkvæmdastjóri og Valgeir Guðmundur Magnússon (Valli Sport) stjórnarformaður.