Viðskipti með hlutabréf flugfélagsins Norwegian hafa verið stöðvuð af norsku kauphöllini, að því er norski fréttavefurinn Finansavisen greinir frá. Beðið er tilkynningar frá félaginu, en miklar blikur hafa verið á lofti um rekstur félagsins á síðustu vikum.

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að ríkissjóður Noregs hygðist ekki veita félaginu frekari fjárstuðning. „Ég get ekki ábyrgst það að við lifum af. En ég hef von og trú,“ var haft eftir forstjóranum Jacob Schram við þau tíðindi.

Norwegian óskaði eftir frekari aðstoð á dögunum upp á nokkra milljarða norskra króna. „Ríkisstjórnin hefur tekið þá ákvörðun að það sé ekki góð notkun á almannafé,“ var haft eftir Iselin Nybø, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs.

Heildarumfang stuðnings norskra stjórnvalda við flugfélög og rekstrarfélög flugvalla þar í landi nemur um 14 milljörðum norskra króna á þessu ári, eða sem samsvarar um 210 milljörðum íslenskra króna.

Norwegian er einn af helstu keppinautum Icelandair, en gengi bréfa Icelandair hefur verið meira og minna stöðugt í dag á bilinu 1,35 til 1,37 krónur á hlut.