Með skráningu á Aðalmarkað munu hlutabréf Alvotech ná til breiðari hóps fjárfesta. Fyrirtæki á Aðalmarkaðnum eiga möguleika, að vissum skilyrðum uppfylltum, að vera valin til þátttöku í innlendum og erlendum hlutabréfavísitölum.

„Alvotech er fyrsta íslenska fyrirtækið til að vera tekið til viðskipta á markað bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Það er okkur ‏því mikil ánægja að viðskipti geti nú hafist með bréfin á Aðalmarkaðnum. Það gerir gerir breiðari hópi kleift að fjárfesta í bréfum fyrirtækisins, “ segir Róbert Wessman, stofnandi og starfandi stjórnarformaður Alvotech. „Alvotech er skráð, alþjóðlegt fyrirtæki á sviði líftæknilyfjahliðstæða. Við höfum þegar fjárfest fyrir yfir 150 milljarða króna til að byggja upp fullkomna aðstöðu til að þróa og framleiða hagkvæmari líftæknilyf sem geta bætt lífsgæði sjúklinga um allan heim.“

Til að fagna því að vera tekið til viðskipta á Aðalmarkað mun Róbert Wessman hringja lokabjöllu Kauphallarinnar í dag 8. desember, kl. 15:30.

Hlutabréf í Alvotech hafa verið samhliða á tveimur mörkuðum síðan í júní sl., eftir að viðskipti hófust á Nasdaq hlutabréfamarkaðnum í Bandaríkjunum þann 16. júní sl. og á First North markaðnum 23. júní sl. Stjórn Alvotech samþykkti áætlun um að færa skráninguna af First North yfir á Aðalmarkaðinn þann 12. ágúst sl. Þann 2. desember sl. samþykkti Nasdaq Iceland beiðni Alvotech um töku til viðskipta á Aðalmarkaðnum. Dagsetning yfirfærslunnar var tilkynnt formlega af Kauphöllinni þann 6. desember sl. eftir að skráningarlýsing félagsins í tengslum við breytinguna hafði verið færð frá Lúxemborg til Íslands.