Viðsnúningur íslenska hagkerfisins er talinn verða hraðari en vonir stóðu til, ef marka má ársfjórðungslega samantekt Viðskiptaráðs Íslands á íslensku efnahagslífi sem kemur út í dag. Ber þar helst að nefna hraðminnkandi atvinnuleysi. Eftir að hafa náð sögulegu hámarki í 11,6 prósentum í maí 2020 hefur atvinnuleitendum fækkað mjög.

Í maí var atvinnuleysi skráð 8,4 prósent og gert er ráð fyrir að það verði 6,7 prósent að meðaltali í ár.

Aðrir skammtímahagvísar benda síðan til þess að viðsnúningur hagkerfisins verði hraður. Leiðandi hagvísir Analytica, sem spáir fyrir um stöðu hagkerfisins að sex mánuðum liðnum, er kominn í sitt hæsta gildi frá ársbyrjun 2020.

Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgar einnig hratt. Í maí á þessu ári fóru 87 prósent færri farþegar um flugvöllinn samanborið við maí 2019, sem teljast má síðasta eðlilega ferðamannasumarið fyrir heimsfaraldurinn. Það sem af er júlímánuði var þessi sami mismunur kominn niður í 54 prósent, sem bendir til þess að ferðaþjónustan sé að taka hratt við sér.

Væntingavísitala almennings hefur jafnframt ekki verið hærri frá árinu 2017 og væntingar stjórnenda í atvinnulífinu um framtíðarhorfur hafa ekki verið hærri frá árinu 2019.Viðskiptaráð bendir á að fleira megi tína til sem bendir til kröftugs viðsnúnings:

„Auglýst störf tvöfölduðust á öðrum ársfjórðungi og námu um fjórum prósentum af öllum störfum.

Innflutningstölur benda til sterkrar, innlendrar eftirspurnar þar sem bæði neyslu- og fjármagnsvörur uxu um fjórðung á föstu gengi á fyrri helmingi ársins. Loks náði kortavelta sömu gildum og árið 2019 að raunvirði. Vart þarf að taka fram að þessir skammtímahagvísar eru afar viðkvæmir fyrir faraldrinum og sóttvarna­aðgerðum."