Viðskiptaafgangur var réttu megin við núllið á síðasta ári og var jákvæður um 30,9 milljarða króna, að því er kemur fram í nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands. Þó er um að ræða töluverðan samdrátt frá árinu 2019 þegar viðskiptaafgangur var tæpir 194 milljarðar króna.

Afgangur af viðskiptum við útlönd er meira og minna í takt við nýjustu spá Seðlabankans. „Hagstæð þróun frumþáttatekna og rekstrarframlaga leiðir þó til þess að áfram mælist afgangur á viðskiptajöfnuði í fyrra. Á þessu ári er gert ráð fyrir lítils háttar afgangi en að hann aukist á næstu tveimur árum,“ segir í nýjastu útgáfu Peningamála Seðlabankans.

Halli á vöruskiptajöfnuði á síðasta ári var 90,3 milljarðar en afgangur á þjónustujöfnuði var 72,8 milljarðar.

Hrein staða við útlönd var jákvæð um 1039 milljarða króna eða ríflega 35 prósent af vergri landsframleiðslu. Erlenda staðan batnaði um 83 milljarða á fjórða fjórðungi, eða sem nemur 2,8 prósentum af vergri landsframleiðslu.