Frumniðurstöður nýrrar rannsóknar sem unnin var af Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands benda til þess að 40 prósent fólks á leigumarkaði muni ekki geta safnað sér fyrir íbúð. Guðmundur segir öll gögn sýna að staða leigjenda þyngist eftir því sem fólk eldist.

„Fyrir fjölskyldufólk eru meiri líkur á að lifa af hættulegar veirur en að komast af leigumarkaði eftir þrítugt. Ef þú ert eldri en 34 ára þá eru innan við tveggja prósenta líkur á að þú losnir af leigumarkaði. Aftur á móti eru 90 prósenta líkur á því að lifa af ebólaveiruna,“ segir Guðmundur.

"Húsnæði er skilgreint fyrst og fremst sem grundvallarmannréttindi"

Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi er alfarið orðinn fjárfestingamarkaður að mati Guðmundar. Hann sé ekki þessi félagslegi markaður sem oft er talað um. „Húsnæði er skilgreint fyrst og fremst sem grundvallarmannréttindi og þess vegna er þetta svo mikil öfugþróun.“

Hann bendir á að vísitala byggingarkostnaðar hafi hækkað um 72,2 prósent frá árinu 2010 en vísitala húsnæðisverðs hækkað um 215 prósent.

Á höfuðborgarsvæðinu eru um tvö þúsund íbúðir skráðar til skammtímaleigu. Það samsvarar þremur prósentum af öllum íbúðum í Reykjavík. Til samanburðar er hlutfall slíkra íbúða 0,23 prósent í Stokkhólmi, eða tólf sinnum færri en í Reykjavík.

Guðmundur telur að með því að þrengja skilyrði að lánsfé tryggi stjórnvöld að aðeins þeir sem séu vel stæðir fái að skuldsetja sig á meðan láglaunafólk endi á leigumarkaði. „Það er hins vegar til mjög einföld lækning við þessu. Það er aukið framboð á húsnæði, betri vernd fyrir leigjendur og hömlur á leiguverð. Þessi lækning er notuð í löndum í kringum okkur,“ segir Guðmundur.