Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors, hefur komist að samkomulagi við stjórn greiðslumiðlunarfélagsins um að hann láti af störfum eftir áratug við stjórnvölinn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Arion banki, móðurfélag Valitors, sendi Kauphöllinni síðdegis í dag.

Herdís Fjeldsted, varaformaður stjórnar Arion banka og formaður stjórnar Valitor, mun taka tímabundið við starfi forstjóra greiðslumiðlunarfélagsins. Hún mun gegna starfinu þar til stjórn Valitors hefur ráðið forstjóra til frambúðar. Á því tímabili sem Herdís gegnir starfi forstjóra Valitor mun hún ekki taka þátt í störfum stjórnar Arion banka.

Þór Hauksson, varaformaður stjórnar Valitor, tekur við sem stjórnarformaður félagsins á meðan Herdís sinnir starfi forstjóra.