Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir að mikilvægt sé að ræða um sjávarútveg þar sem hann standi hjarta okkar nærri og að þjóðin muni aldrei verða södd af umræðu um hann.

Þetta sagði hún í sjónvarpsþættinum Markaðurinn aðspurð hvernig skapa megi sátt um greinina en þátturinn verður sýndur á sjónvarpsstöðinni Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld.

„Við þurfum aftur á móti að auka gagnsæi og traust í sambandi við sjávarútveginn þannig að fólk skilji hvernig verðmætin verða til og fólk skilji hvað sé áframhaldandi verðmætasköpun.“

Heiðrún nefnir í þættinum að í því samhengi séu tveir þættir sem skipti máli.

„Það er að hámarka afrakstur nytjastofna og vera með hagkvæman rekstur. Þannig verða verðmætin til en ég skil og ég geri ekki lítið úr því að það þarf að taka einstaka ákvarðanir til að stuðla að samfélagslegri sátt. Það hefur verið reynt og margoft gert eins og með hámarksaflahlutdeild, krókakerfið, strandveiðar og veiðigjaldið er hluti af því,“ segir Heiðrún og bætir við að umræðan um sjávarútveginn muni aldrei klárast.

„Það verður aldrei hin endanlega sátt þar sem við verðum öll sátt um sjávarútveginn og við skulum ekki gera okkur vonir um það en vonandi þá skiljum við betur hvernig verðmæti verða til.“