Sviðsstjóri efnahagssvið Hagstofunnar segir að stofnunin þurfi að reyna að gera betur hvað varðar birtingu á hagtölum.

Síðastliðinn föstudag tilkynnti Hagstofan að landsframleiðslan á fyrsta ársfjórðungi hefði verið endurskoðuð. Samkvæmt endurskoðun dróst landsframleiðslan saman að raungildi um 0,9 prósent frá sama ársfjórðungi fyrra árs, borið saman við 1,7 prósenta vöxt samkvæmt áður birtum niðurstöðum.

Hagstofan birti síðan í þessari viku leiðréttingu á landsframleiðslutölum á öðrum ársfjórðungi. Var fjárfesting tímabilsins vanmetin um 9,1 milljarða króna á verðlagi ársins. Eftir leiðréttingu mælist vöxtur landsframleiðslunnar 2,7 prósent að raungildi á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 1,4 prósent samkvæmt áður birtum niðurstöðum.

„Við þurfum að reyna að gera betur,“ er haft eftir Birni Rúnari Guðmundssyni, sviðsstjóra efnahagssviðs Hagstofu Íslands í umfjöllun Viðskiptablaðsins sem birtist í dag.

„Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því að þetta er tölfræði en ekki heilagur sannleikur. Það er alltaf undirliggjandi mat í öllum þessum stærðum. Þær eru þannig hannaðar að það er í þeim óvissa. Sú óvissa getur verið vegna gagna, aðferðafræðilegrar ónákvæmni, mannlegra mistaka og svo framvegis. Auðvitað viljum við reyna að minnka þessa óvissu eins mikið og mögulegt er,“ sagði Björn Rúnar.

Hagstofan fari í naflaskoðun

Í Markaðspunktum Arion banka frá því í byrjun vikunnar var farið hörðum orðum um mistök Hagstofunnar. Stofnunin hafi að undanförnu „tapað verulega trúverðugleika sínum.“

„Síendurtekin endurskoðun landsframleiðslutalna er áhyggjuefni, svo ekki sé meira sagt. Hagkerfið stendur á ákveðnum tímamótum eftir gjaldþrot WOW air, svo mikilvægt er að hagtölur fangi stöðu hagkerfisins sem best og njóti tiltrúar. Heimili, fyrirtæki og fjárfestar reiða sig m.a. á opinberar hagtölur þegar teknar eru ákvarðanir, og greiningaraðilar, Seðlabankinn og ráðuneyti, byggja spár sínar á þeim tölum sem tiltækar eru á hverjum tíma.

Þessar spár liggja oftar en ekki til grundvallar við ákvarðanatöku. Þá má ekki gleyma að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði innihalda ákvæði um hagvaxtarauka! [...] Nú í framhaldinu hlýtur Hagstofan að leggjast í naflaskoðun á því hvernig staðið er að mælingum, útreikningi, villuprófunum og birtingu á landsframleiðslutölum“