Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir seðlabankastjóra hafa brugðist hlutverki sínu að viðhalda verðstöðugleika, að verkalýðshreyfingin muni ekki sitja þegjandi og hljóðalaust hjá og muni sækja hverja einustu krónu.

„Við í verkalýðshreyfingunni munum ekki sætta okkur við það að vera kennt um hans hagstjórnarmistök,“ segir Ragnar og bætir við að hann sé viss um að fólkið í landinu sé ósammála því að hægt sé að kenna launahækkunum um stöðuna.

„Sérstaklega þegar það eru tölur sem vísa í allt annað en seðlabankastjóri er að halda fram. Við vitum að ástæðan fyrir þessari stöðu er húsnæðismarkaðurinn. Hann er ástæðan fyrir því að Seðlabankinn nær ekki að halda sér á verðbólgumarkmiði. Síðan má líka benda á að fyrirtækjum hefur sjaldan gengið betur.“

Hann bætir við að stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær hafi verið mikil vonbrigði.

„Þetta er í sjálfu sér mikið áhyggjuefni. Við erum að horfa fram á miklar verðlagshækkanir út af ytri aðstæðum, miklar hrávöruverðs og olíuverðshækkanir. Aðgerðaleysi stjórnvalda í þessum efnum er líka ámælisvert. Aðgerðaleysi þeirra í að bregðast við þessum hækkunum til dæmis með því að lækka virðisaukaskatt á nauðsynjavörur og olíugjald.“

Aðspurður hvort verkalýðshreyfingin muni ekki taka með í reikninginn að vextir séu enn sögulega lágir segi Ragnar að allir þættir verði skoðaðir í komandi kjaraviðræðum.„Auðvitað tökum við allt með inn í reikninginn þegar við förum inn í næstu kjaraviðræður en við munum ekki sitja hjá meðan seðlabaknastjóri skellir skuldinni á verkalýðshreyfinguna og launafólk fyrir að hafa klúðrað málunum sjálfur.“