Banda­ríska flug­mála­stjórnin (FAA) af­létti í dag kyrr­setningu á öllum Boeing 737 Max-flug­vélum í Banda­ríkjunum. Flug­vélarnar hafa verið kyrr­settar í rúma tuttugu mánuði eftir að tvær brot­lendingar voru raktar til galla í stýri­kerfi vélanna.

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair Group, fagnar því að vélarnar megi fljúga á ný vestan­hafs en Icelandair á enn eftir að frá sex 737 MAX-vélar afhentar frá Boeing.

„Við erum búin að fá af­hentar sex vélar og vorum með tíu vélar til við­bótar í pöntun en í sumar skrifuðum við undir sam­komu­lag þar sem við fækkuðum vélum í pöntun, þannig við fáum sam­tals tólf,“segir Bogi.

Hann býst við því að Icelandair fái þrjár vélar í vor og þrjár til við­bótar um ára­mótin 2021-2022.

„Við gerum ráð fyrir því að nota MAX-vélarnar næsta sumar. Það er það sem er upp­leggið okkar,“ segir Bogi.

„Við hugsum þetta sem fram­tíðar­vélar í okkar flota og okkar leiða­kerfi. Við vorum með þessar vélar í rekstri í á­kveðinn tíma áður en þær voru kyrsettar og þær nýttust okkur mjög vel.“

Evrópsk flug­mála­yfir­völd (EASA) hafa lýst því yfir að þær því yfir að þær úr­bætur sem flug­véla­fram­leiðandinn Boeing hefur gert á hönnun 737 Max-flug­vélanna séu full­nægjandi og að flug­vélunum verði mögu­lega heimilt að hefja sig til flugs á ný í evrópskri loft­helgi áður en árið er úti.

Bogi segist gera ráð fyrir því að vélarnar megi fara í loftið í Evrópu um miðjan janúar.

„Við erum ekki að gera ráð fyrir vélunum fyrr en vor í okkar leiða­kerfi þannig við höfum nægan tíma. Ef þetta gengur allt eftir eru okkar plön að standast,“ segir Bogi.

Spurður um hvort fréttir um mögu­legt bólu­efni við CO­VID-19 hafi breytt ein­hverju í lang­tíma­á­ætlun Icelandair, segir Bogi það hafi ein­hver á­hrif en fyrir­tækið er búið að birta flug­á­ætlun.

„Við erum búin að birta flug­á­ætlun okkar fyrir næsta sumar þar sem við erum að horfa til þess að fljúga á 34 á­fanga­staði. Þetta er svona 25 til 30 prósent minni flug­á­ætlun en við vorum með 2019. Hún byggist á því að eftir­spurn taki veru­lega við sér og landa­mæri séu meira opin en í dag. Þetta er samt allt breytingum háð og við erum bara að vera sveigjan­lega og halda lífi í okkar inn­viðum,“ segir Bogi að lokum.