Íslensk erfðagreining stendur á tímamótum um þessar mundir því 25 ár eru liðin frá því fyrirtækið var stofnað.

Kári Stefánsson, forstjóri og stofnandi fyrirtækisins, verður í ítarlegu spjalli í Markaðnum á Hringbraut í kvöld klukkan 19.

Þar rekur hann sögu fyrirtækis sem hefur verið á milli tannanna á fólki svo áratugum skiptir. Ekki síst vegna rannsókna og aðferða sem á upphafsárunum þóttu ganga of langt.

Að sögn Kára hefur oft tekið á að berjast fyrir tilverurétti Íslenskrar erfðagreiningar. Það hafi gefið á bátinn og fyrirtækið nánast farið í þrot árið 2008.

Í dag sé staðan hins vegar feykisterk og reksturinn góður. Það vill Kári þakka einstöku teymi fólks sem hefur leitt rannsóknir og staðið þétt með fyrirtækinu allt frá stofnun.

Kári segir það vel þekkta staðreynd að Íslensk erfðagreining sé leiðandi í heiminum á sviði erfðafræði í dag. Hann þurfi ekki lengur að sannfæra neinn um ágæti eða gæði þeirrar vinnu sem frá fyrirtækinu kemur.

„Íslensk erfðagreining hefur alltaf verið skrefi á undan öðrum. Og þá er ég líka að tala um gífurlega kraftmiklar háskólastofnanir í Bandaríkjunum sem hafa reynt að gera það sama og við erum að gera.

„En þegar kemur að okkar vinnu þá gæti ég ekki verið stoltari. Við höfum gert tímamóta uppgötvanir á sviði erfðafræði allflestra algengustu sjúkdóma mannsins," segir Kári Stefánsson.