„Sveitarfélögin þurfa að líta í eigin barm hvað varðar erfiða rekstrarstöðu,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs. Hún segir of algengt að horft sé til ríkisins með aukið fjármagn þegar illa árar í rekstrinum.

„Við erum í áætlunarvinnu um þessar mundir og það blasir hreinlega við að sveitarfélög þurfa að hagræða til að ná endum saman. Það á ekkert bara við um Kópavog heldur almennt hjá sveitarfélögunum. Ég hef verið ófeimin við að benda á þetta.“

Ásdís segir ekki hægt að horfa eingöngu til málaflokka sem færst hafa frá ríki til sveitarfélaga án þess að nægilegt fjármagn fylgi.

Ég get ekki betur séð en að rekstur sveitarfélaga hafi þanist út almennt

„Mér finnst málflutningur okkar of oft snúast um að horfa til ríkisins í þessum efnum. En ég get ekki betur séð en að rekstur sveitarfélaga hafi þanist út almennt.“

Nærtækast sé að horfa á almenn rekstrarútgjöld að mati Ásdísar og það hvernig launakostnaður hafi vaxið ár frá ári.

„Við þurfum að forgangsraða. Líta á reksturinn í heild sinni og skoða hvaða þjónustu við erum að veita,“ segir Ásdís og bætir við að verkefnið fram undan verði að styrkja grunnþjónustuna og standa vörð um lögbundna þjónustu.

„Auðvitað er freistandi að fara í alls konar dúlluverkefni en við getum ekki endalaust verið að seilast í vasa skattgreiðenda. Það á auðvitað bæði við um sveitarfélög og ríkið,“ segir Ásdís.

Bæjarstjóri Kópavogs ræddi fjárhagsstöðu sveitarfélaga í þættinum Markaðurinn á Hringbraut fyrr í kvöld. Hægt er að horfa á þáttinn hér fyrir neðan.