Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, segir COVID-19 faraldurinn hafa margþætt áhrif á rekstur Samherja en hvetur jafnframt sjómenn til dáða. Miklar breytingar hafa verið á marköðum fyrir ferskar sjávarafurðir á síðustu vikum vegna COVID-19 faraldursins og er útflutningur á fiski aðeins um fjórðungur af því sem hann var áður en faraldurinn hófst.

„Tíminn sem nú fer í hönd er eitthvað sem aldrei hefur sést fyrr og langt frá því sem við höfum nokkurn tíma ímyndað okkur að gæti gerst. Við getum bara vonað að þessu ljúki sem fyrst,“ segir Kristján í bréfi sem sent var sjómenn á skipum Samherja á dögunum. Þá bætti hann við að það væri samfélagsleg skylda allra til að gera eitthvað til að hefta útbreiðslu veirunnar.

Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja.
Mynd/Samherji

Áhöfn verði í hálfgerðri einangrun um borð

Að sögn Kristjáns hafa eigendur og yfirmenn fyrirtækisins reynt að fara eftir tilmælum stjórnvalda og gripið til ýmissa ráðstafanna, til að mynda eru nýjar umgengnisreglur, aukin þrif, lágmörkun á viðhaldi, og svo framvegis. Starfsemi í ÚA og Dalvík var einnig minnkuð um helming þar sem aðeins helmingur starfsfólks vinnur á sama tíma.

„Skip er vinnustaður með mikla nánd manna, þess vegna þarf að hugsa þar ráð sem best geta dugað. Í sjálfu sér er ekki smithætta úti á sjó svo fremi sem enginn er smitaður,“ segir Kristján en vegna þessa kom upp sú hugmynd að áhöfn hvers skips væri raun í einangrun um borð. „Þetta er ný hugmynd sem kom upp sem tilraun í baráttunni og virðist í raun vera nokkuð skynsöm.“

Markmiðið að minnka smit og halda vinnu fólks

Þá telur hann ljóst að slíkar aðgerðir muni ekki reynast auðveldar fyrir marga en hann segir að með aðgerðunum verði auknar líkur á að betur takist að halda rekstri skipanna áfram og halda þar með tekjum sjómanna.

„Markmið fyrirtækisins er að gera það sem hægt er til að halda starfsfólki frá smiti en á sama tíma að fólkið haldi vinnu. Það er einungis hægt með samstilltu framtaki hvers og eins. Þannig trúum við að best verði að koma aftur í venjulegan rekstur þegar fárinu lýkur og að enginn viðskiptavinur erlendis hafi gleymt okkur,“ segir hann að lokum.