Fasteignasalar vilja ekki hafa fasteignamarkaðinn eins og hann hefur verið en miklar hækkanir hafa einkennt markaðinn á undanförum misserum. Þetta segir Monika Hjálmtýsdóttir, varaformaður Félags fasteignasala en hún var gestur í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld.

„Ég vona ofboðslega mikið að markaðurinn nái jafnvægi. En ég veit að til svo verði þá er ekki hægt að bregðast við þessum sveiflum endalaust og í sífellu vera að örva þetta og kæla með ytri aðgerðum,“ segir Monika og bætir við að fasteignasalar vilji sjá alvöru aðgerðir af hálfu stjórnvalda.

„Við viljum sjá alvöru aðgerðir í þessum málum hjá stjórnvöldum til að koma þessum markaði, sem skiptir alla máli, í öruggt kerfi sem við getum treyst að sé gott.“

Monika segir þar að auki að fasteignasalar vilji umfram allt sjá markaðinn komast í eðlilegan farveg.

„Við fasteignasalar viljum alls ekki hafa markaðinn svona. Við viljum bara að þetta sé eins og á að vera og í eðlilegum farvegi þar sem framboð og eftirspurn ráða. Það er nógu mikið af eignum að selja og fasteignaverð sé í takt við verðlag.“