Í skýrslu fjármálastöðuleikanefndar Seðlabankans kemur fram að versnandi alþjóðlegar efnahagshorfur kunni að hafa áhrif á íslenskan þjóðarbúskap. Verðbólga hefur ekki verið meiri í áratugi og seðlabankar því gripið til brattra vaxtahækkana. Stríðið í Úkraínu hefur svo leitt til hærra orkuverðs og það eykur enn frekar á vandann að mati Seðlabankans.

Þrátt fyrir þessa stöðu telur Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri margt horfa til betri vegar um þessar mundir.

„Það reynir á varnarlínur sem við höfum byggt upp við þessar aðstæður, en við teljum okkur sjá skýr merki þess að umgjörð efnahagsmála á Íslandi muni standast prófið líkt og við stóðumst Covid-faraldurinn. Það er ánægjulegt,“ segir Ásgeir

Hann segir ljóst að næstu mánuðir verði krefjandi. „Horfur hafa versnað á alþjóðavettvangi og við erum allt lítið opið hagkerfið sem er háð umheiminum.“

Enn um sinn verði verðbólgan þó okkar stærsta verkefni. Í þeim efnum vill Ásgeir draga fram þær breytingar sem hafa átt sér stað á húsnæðislánamarkaði á Íslandi. Á faraldurstímanum færðu Íslendingar sig yfir í nafnvexti sem hefur gefið vaxtastefnu Seðlabankans aukið áhrifaafl. Þetta er þó ekki hið eina. Það að geta fært sig á milli lánategunda er ákveðin bylting. Hún tengist meðal annars afnámi stimpilgjalda og lækkun uppgreiðslugjalda. Þetta skiptir verulegu máli því fólk hefur meira val í dag og ákveðið frelsi til að stýra greiðslubyrðinni án þess að það hafi óheyrilegan kostnað í för með sér,“ segir Ásgeir.

„Ég vil halda því fram að Íslendingar séu loksins farnir að átta sig á því hvernig verðbólga virkar.“ Hér áður fyrr, heldur Ásgeir áfram, hafi hin svokölluðu Íslandslán verið allsráðandi sem verðtryggð lán með jafngreiðsluskilmálum. Þau hafi fyrst og fremst verið hugsuð til að vernda lántakendur fyrir áhrifum verðbólgu og sveiflum.

„Ég er að tala um þessi hefðbundnu verðtryggðu fjörutíu ára lán sem við þekkjum. Þegar þau voru allsráðandi var greiðslubyrði húsnæðislána nær ónæm fyrir áhrifum verðbólgu. Afborganirnar hreyfðust lítið eitt þótt verðbólga færi á flug en þess í stað át verðbólgan niður eigið fé í húsnæði en án þess fólk gæfi því mikinn gaum.“

Seðlabankastjóri segir umhverfið gerbreytt í dag því greiðendur húsnæðislána sjá áhrif verðbólgunnar á greiðsluseðlunum um hver einustu mánaðamót.
Fréttablaðið/Anton Brink

Almennt séð líti fólk alltaf mest til greiðslubyrðar lána sinna að mati Ásgeirs. Hvernig þær bíta um hver mánaðarmót.

„Það er að mörgu leyti eðlilegt en á meðan fjárhæðin hreyfist ekkert er hætt við að fólk verði ónæmt fyrir raunverulegum áhrifum verðbólgu. Slíkt umhverfi leiðir svo til ákveðins sinnuleysis,“ segir Ásgeir.

„Svo smitast þetta sinnuleysi áfram inn í stjórnmálin því pólitíkin fær ekki skýr skilaboð frá almenningi að verðbólga skipti máli. Þetta er alveg kjörið ástand fyrir langvarandi verðbólgu líkt og við höfum svo lengi búið við á Íslandi, því enginn telur nógu brýnt að takast á við hana.“

Ásgeir segir ákveðið sinnuleysi hjá stjórnmálamönnum. Almenningur fái ekki skýr skilabo ðum að verðbólgan skipti máli.

„Ég held að fólk sé mun meðvitaðri um lánin sín og velti fyrir sér kostum og göllum ólíkra lánaforma.“

Þetta eru langstærstu ókostirnir við verðtrygginguna að mati Ásgeirs. „Enda hefur Seðlabankinn lagst á sveif með verkalýðshreyfingunni að draga úr vægi verðtryggingar. Við höfum þó aldrei verið þeirrar skoðunar að það eigi að banna hana heldur undirstrikað mikilvægi þess að byggja upp annan valkost með nafnvaxtakerfi samhliða trúverðugri peningastefnu“ segir Ásgeir

Hann segir umhverfið gerbreytt í dag því greiðendur húsnæðislána sjá áhrif verðbólgunnar á greiðsluseðlunum um hver einustu mánaðamót.

„Nú er staðan sú að fólk þarf að staðgreiða verðbólgu með hærri nafnvöxtum. Það setur þrýsting á útgjöld heimilisins en á sama tíma á sér mjög hröð eignamyndun í húsnæðinu. Nú er 12 mánaða verðbólga rúmlega 9% og það felur í sér að raunvirði húsnæðislána hefur lækkað um rúmlega 9% á einu ári. Það er er töluverð breyting. Ég held að fólk sé mun meðvitaðri um lánin sín og velti fyrir sér kostum og göllum ólíkra lánaforma. Það síðan leiðir til þess að fólk verður jafnframt meðvitaðri um áhrif verðbólgunnar og hve mikilvægt það er að berjast gegn henni. Allt vegna þessara breytinga á lánamarkaði sem við höfum séð. Fólk sem er með breytilega vexti á lánum veit upp á hár hvað ég er að tala um. Það skilur stöðuna og fylgist gaumgæfilega með henni. Hellir sér svo yfir seðlabankastjóra og pólitíkusa og krefst úrbóta. Þannig viljum við einmitt hafa þetta enda er peningastefnan ekki einkamál hagfræðinga og stjórnmála heldur kemur allri þjóðinni við,“ segir Ásgeir.

„Ég vil samt taka fram að ég hef fullan skilning á að það bíti fast þegar greiðslubyrði húsnæðislána hækkar um tugi þúsunda á milli mánaða. Ég vil bara meina að það sé samt heilmikill árangur hjá okkur að skuldir heimilanna haldi áfram að lækka á sama tíma að raunvirði. Um níu prósent á síðustu tólf mánuðum. Það er mjög heilbrigt enda erum við að sjá mjög hraða eignamyndun jafnvel þó einhver leiðrétting muni eiga sér stað á fasteignamarkaði,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.