Félag atvinnurekenda, FA, hefur sent erindi á Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra þar sem lagðar eru fram sex spurningar til ráðherra um hvaða valkostir hafi verið til skoðunar áður en tekin var ákvörðun um að herða sóttvarnaaðgerðir stórlega í lok síðustu viku.
„Við erum hugsi yfir því að hvað verið er að nota stóran hamar á þetta,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í samtali við Fréttablaðið. FA hvetur til opinská umræða um fleiri valkosti en þá sem stillt var upp í minnisblaði sóttvarnalæknis.
„Að takmarka frelsi allra þegar í raun og veru ætti að beina aðgerðunum þrengra. Annars vegar á spítalanum og hins vegar að óbólusettum,“ segir hann.
Spurningarnar eru eftirfarandi:
- Var lagt mat á kostnað atvinnulífsins og eftir atvikum ríkissjóðs af þeim sóttvarnaaðgerðum sem ákveðið var að ráðast í? Ef ekki, hvers vegna ekki?
- Ýmis vestræn ríki hafa gengið mun lengra í viðbúnaði heilbrigðiskerfisins við faraldrinum en hér hefur verið gert, m.a. með mikilli fjölgun gjörgæzlurýma. Var sá kostur tekinn til skoðunar að ráðast í mun stærra átak til að efla Landspítalann og aðrar heilbrigðisstofnanir en lýst er í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 14. janúar síðastliðnum? Ef ekki, hvers vegna ekki?
- Var kostnaður af slíku átaki borinn saman við þann kostnað, sem atvinnulífið og ríkissjóður bera af hertum sóttvarnaráðstöfunum? Ef ekki, hvers vegna ekki?
- Ítrekað hefur komið fram að óbólusettir einstaklingar valdi hlutfallslega miklu stærri hluta af álagi á heilbrigðiskerfið vegna kórónuveirusmita en bólusettir. Var lagt mat á þann kost að fara t.d. svipaða leið og gert hefur verið í Austurríki; að heimila óbólusettum eingöngu að yfirgefa heimili sitt til að sækja vinnu og kaupa inn nauðsynjar? Ef ekki, hvers vegna ekki?
- Var lagt mat á þann kost að gera bólusetningu að skyldu nema læknisfræðilegar ástæður mæli á móti því, t.d. fyrir einstaklinga sem náð hafa tilteknum aldri, sbr. lagasetningu um slíkar aðgerðir í t.d. Austurríki og á Ítalíu? Ef ekki, hvers vegna ekki?
- Var lagt mat á þann valkost að gera framvísun bólusetningarvottorðs að skilyrði fyrir inngöngu í t.d. skóla, veitingastaði og menningarstofnanir, almenningssamgöngur og til að nota þjónustu þar sem veitt er þjónusta sem krefst nándar við viðskiptavini, líkt og gert hefur verið í Danmörku? Ef ekki, hvers vegna ekki?
Eru að skoða meðallegutíma
Willum Þór sagði í samtali við mbl.is í morgun sagði yfirvöld væru enn vera að afla sér upplýsinga svo hægt sé að ræða um stöðu samfélagsins til lengri tíma í samhengi við faraldurinn. Var hann spurður á hvaða tímapunkti væri hægt að aflétta aðgerðum.
„Nú erum við að skoða hvernig meðallegutími er að breytast og við þurfum að rýna í þær tölur mjög vel, eftir þeim sem hafa verið að leggjast inn og hvernig staðan er út frá þeim afbrigðum. Delta hefur verið að trufla þetta svona framan af. Svo verður merkilegt að sjá útkomuna úr þeirri rannsókn sem Íslensk erfðagreining er að gera. Það mun hjálpa okkur líka í þeirra ákvarðanatöku til að sjá hversu útbreitt þetta er.“