Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra, sagðist telja hug­mynda­fræði­legan á­greining út­skýra á­hyggjur þing­manna af sölu á eignar­hlut ríkisins í Ís­lands­banka, á Al­þingi nú síð­degis þar sem hann stóð fyrir svörum vegna málsins.

Þar spurðu þing­menn úr stjórnar­and­stöðunni Bjarna að því hvers vegna málið væri borið upp nú og hvernig ætti að nýta sölu­and­virðið á hlutnum. Ólafur Ís­leifs­son, þing­maður Mið­flokksins, sagðist vera engu nær um það hvernig ætti að nýta sölu­and­virðið eftir svör Bjarna.

„Ég er engu nær. Veirufárið kostar ríkis­sjóð um milljarð á dag í út­gjöld og tapðar tekjur,“ sagði Ólafur. Hann sagði sölu­and­virðið vera 35-40 milljarða króna, sem ef allt færi í rekstur myndi dekka mánuð af fjár­tjóni ríkis­sjóðs.

Bjarni sagði að ef þing­menn væru sam­mála um að hér væri á ferðinni arð­bær eign, hlytu þeir þá að hafa trú á því að fyrir hann fengist sann­gjarnt verð á markaði.

„Ég verð að spyrja mig á­leitinna spurninga um það hvort við getum ekki að lág­marki verið sam­mála um það að ef eignin er góð, því hærra verð til ríkis­sjóðs. Við erum ekki að af­henda neitt, við erum að selja. Menn spyrja sig í hvað á að nýta endur­gjaldið. Má ég vekja at­hygi á því að ríkis­sjóður er á þessu ári rekinn með 40 prósenta halla. Heildar­virði bankans eftir að hann verður skráður, heildar­virðið losar örugg­lega vel rúm­lega 100 milljarða og það munar um þá fjár­hæð.“

Smári sagðist ekki hafa heyrt nein jákvæð rök fyrir sölu á Íslandsbanka.

Segir um að ræða hug­mynda­fræði­legan á­greining

Smári Mc­Cart­hy, þing­maður Pírata, sagðist vilja sjá hlut­laus við­mið um sölu á eigna­hlut bankans. Hann sagði að sér finndist líkt og Bjarna þætti alltaf góður tími til að selja. „Kann það að vera að það sé enginn vilji fyrir hlutt­lausum vimiðum því þá þyrfti sann­leikurinn að koma fram? Eru ein­her rök fyrir því að þetta sé æski­legt á þessum tíma­punkti? Þau rök hef ég ekki endi­lega heyrt.“

Bjarni bar þá til varna fyrir sig og sagði það rangt að hann hefði alltaf mælt með sölu. Hann hefði bent á slíkt síðasta vor. Óskaði Smári þess þá að borin væru fram já­kvæð rök um söluna, ekki bara rök um það að það væri ekki endi­lega á­hættu­samt fyrir ríkið að selja hlut sinn.

Bjarni sagði þá að sér þætti ljóst að hug­mynda­fræði­legur á­greiningur út­skýrði á­hyggjur sumra þing­manna. „Bestu rökin fyrir því að selja bankann eru ein­fald­lega þessi hér: Ríkið á ekki að standa í banka­rekstri, ríkið á ekki að vera leiðandi í banka­rekstri á Ís­landi. Ríkið á ekki að ráða yfir tveimur af þremur kerfis­lega mikil­vægum bönkum. Ís­lenska ríkið er með lang­stærsta eignar­hlut allra ríkja í Evrópu og þótt víðar væri leitað í sínu fjár­mála­kerfi.

Þetta eru ein­földu rökin. Ef menn hafa ekki trúað þessum rökum þá held ég að við munum aldrei ná saman um verð eða tíma­setningu eða nokkurn annan skapaðan hlut vegna þess að menn eru ein­fald­lega þeirrar skoðunar að ríkið hafi hlut­verki að gegna sem leiðandi afl og megin eig­andi fjár­mála­kerfisins í við­komandi landi og það er hug­mynda­fræði­legur á­greiningur.“