Gylfi Zoega hagfræðiprófessor spáði í spilin í útvarpsþættinum Sprengisandi í dag. Þar fjallaði hann um verðbólguna sem hann sagði að væri að finna víða um heim þessa stundina og að margir þættir séu til þess, líkt og heimsfaraldurinn og stríðið í Úkraínu. Hann sagði þó að verðbólgan hérlendis stafaði af talsverðu leiti að innlendri eftirspurn, og það sama ætti við í fjölmörgum löndum. Hann telur að staðan gæti haft breytingar í för með sér.

„Stóra myndin er sú að við erum að fara úr tímabili þar sem vextir voru í heiminum nálægt núlli, þar sem hlutabréfaverð voru mjög há, þar sem fasteignaverð var mjög hátt, þar sem fjármagnseigendur högnuðust mjög mikið, þar sem eignaskiptingin var mjög ójöfn, þar sem vinnuöfl á vesturlöndum áttu erfitt uppdráttar þar sem störfin voru að flytjast til Kína og Mexíkó og hvað og hvað. Þessi heimsmynd sem hefur verið hérna er að breytast mjög snöggt, vegna þess að framleiðslukeðjunnar eru að styttast. Fyrirtæki eru að færa framleiðslu heim.“ sagði Gylfi og bætti við: „Við erum að fara aftur í tímann en það er ekki alvont.“

Hann myndi til að mynda telja það jákvætt að hlutabréfamarkaðurinn væri ekki í hæstu hæðum og ekki í tengslum við raunveruleikann.

„Síðustu áratugi hefur myndast gjá á milli fjármálamarkaða og raunhagkerfis. Það er gríðarlegt fjármagn í umferð sem lyftir upp eignarverðum. Aðilar sem eiga fjármagn eru að hagnast gríðarlega. Og það hefur verið yfirvofandi einhverskonar leiðrétting í langan tíma,“ sagði Gylfi sem spáði því að einhverntíman á næstu tveimur árum myndi einhverskonar leiðrétting eiga sér stað, en sagðist vonast til að hún væri ekki of snögg.

Vinnumarkaðurinn fari í hnút í verstu sviðsmyndinni

Þá var Gylfi spurður út í stöðuna hérlendis, sérstaklega í sambandi við komandi borgar- og sveitastjórnarkosningar. Hann sagði að þar þyrftu sveitafélögin að vera samstíga í sínum aðgerðum næstu mánuði. Og síðan var hann spurður hvað gæti gerst ef það myndi ekki gerast.

„Nú hafa vextir hækkað en raunvextir eru samt bullandi neikvæðir. Versta sviðsmyndin er sú að vaxtahækkanirnar verði hægar svo eftirspurnin haldi áfram að vera mjög mikil og að vinnumarkaðurinn fari í hnút,“ sagði hann.