„Ég ætla að hafa þá skoðun að við eigum ekkert heima á þessum gráa lista,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. „Hverjir trúa því að við eigum margt sameiginlegt með þeim löndum sem eru á listanum?“

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, spurði Þórdísi Kolbrúnu um stöðu mála. Þórdís sagði að frumvörpin tvö sem voru nýlega samþykkt á Alþingi til að bregðast við athugasemdum FATF hefðu verið lykilatriði í því að minnka líkurnar á Ísland færi á listann.

„Eina atriðið sem ekki er hægt að haka við að fullu er einhvers konar kerfi sem við þurfum að kaupa og höfum keypt en ekki er búið að ljúka við innleiðingu á því, af því að það er einfaldlega ekki hægt að ljúka henni á örfáum dögum eða vikum,“ sagði Þórdís Kolbrún.

„Það er tímasett nákvæmlega hvenær það verður. Þær upplýsingar liggja allar fyrir gagnvart því fólki sem vinnur þessa vinnu og tekur þessa ákvörðun,“ sagði Þórdís. Þá tók hún fram að engin ákvörðun hefði enn verið tekin um það hvort að Ísland myndi fara á listann.

Fulltrúa allra aðildaríkja FATF funda nú um málið og má vænta niðurstöðu á morgun. Hanna Katrín spurði Þórdísi Kolbrúnu um frétt Fréttablaðsins í dag þar sem fram kom að Ísland nyti fulls stuðnings Evrópusambandsins á fundinum og flestra ríkja þess. Bandaríkin og Bretland væru hins vegar í hópi þjóða sem vildu að Ísland yrði sett á listann.

„Það eru ekki vinir okkar í Evrópusambandinu sem vilja stilla okkur svona upp heldur sérstakir vinir Sjálfstæðisflokksins úr röðum Bandaríkjamanna og Breta sem vilja þannig gera Ísland að fordæmi,“ sagði Hanna Katrín.

„Ef við förum á þennan gráa lista, ef Bretland og Bandaríkin eiga forgöngu um að Ísland sé sett á þennan gráa lista, þrátt fyrir að Evrópusambandið styðji okkur, þá erum við komin í flokk með löndum á borð við Íran, Pakistan, Afganistan, Jemen, Írak og Úganda af því að nokkrir vinir okkar vilja gera úr okkur fordæmi,“ sagði Hanna Katrín.

Í svari sínu gerði Þórdís Kolbrún athugasemd við orðlag Hönnu Katrínar.

„Það er talað um vini Sjálfstæðisflokksins, Bandaríkjamenn og Breta — hvers konar orðfæri er þetta eiginlega? Eru sem sagt Bretar og Bandaríkjamenn ekki vinir Viðreisnar?“ spurði Þórdís Kolbrún.

„Er Viðreisn ekki vinur Breta og Bandaríkjamanna? Er það allt í einu eitthvert skammaryrði fyrir Sjálfstæðisflokkinn að Bretar og Bandaríkjamenn séu vinaþjóðir okkar í alls konar samhengi, viðskiptalegu, stjórnmálalegu o.s.frv.? Ég get ekki alveg tekið undir það,“ sagði Þórdís Kolbrún.