Vélsmiðjan VHE, sem fór í greiðslustöðvun í apríl, tapaði 981 milljón króna árið 2019. Til samanburðar hagnaðist fyrirtækið um 32 milljónir árið áður. Tekjurnar drógust saman um níu prósent á milli ára og námu 8,8 milljörðum króna árið í fyrra.

Eigið fé fyrirtækisins var 577 milljónir króna við árslok 2019 og skuldir námu 9,7 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfallið var sex prósent við árslok. Vaxtaberandi skuldir námu 6,7 milljörðum króna. Fram hefur komið í Markaðnum að Landsbankinn er aðallánveitandi VHE.

VHE, sem er að mestu í eigu Unnars Steins Hjaltasonar, sagði í tilkynningu í apríl að greiðslustöðvunina mætti einkum rekja til þungra áfalla byggingardeildar félagsins síðustu misseri, vegna greiðsluvanda viðskiptavina. Grunnreksturinn væri traustur.

Fram hefur komið í Markaðnum að eigendur VHE hafi byggt upp eigið fé í systurfélaginu Nesnúpi á undanförnum árum. Það hefur staðið að framkvæmdum að Hafnarbraut í Kópavogi, Eskivöllum í Hafnarfirði, Holtsvegi í Garðabæ og í Skarðshlíð. Eignir félagsins námu tæplega 3,4 milljörðum króna í lok árs 2018 og eigið fé rúmlega 300 milljónum. Markaðurinn greindi frá því að Íslandsbanki væri stærsti lánveitandi Nesnúps.

Rekstur VHE hefur gengið erfiðlega frá því að lán frá Landsbankanum tóku stökkbreytingu í kjölfar bankahrunsins 2008. VHE er rótgróið fyrirtæki, stofnað 1971, sem var byggt upp á þjónustu við álver.