Vextir munu haldast lágir á evrusvæðinu þar til hagkerfið hefur náð vopnum sínum á ný í kjölfar heimsfaraldursins. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Christine Lagarde, seðlabankastjóra Evrópska seðlabankans, í dag. Lagarde tók svo djúpt í árinni að segja að fjármögnunarkjör ríkissjóða, fyrirtækja og heimila á evrusvæðinu verði „einstaklega hagstæð“ eins lengi og þurfa þykir, að því er fram kemur í frétt Financial Times.

Lagarde nefndi að mikil áskorun fælist í því að brúa bilið milli þess tímapunkts sem bólusetning væri komin vel af stað og fram að því þegar endurreisn hagkerfis evrusvæðisins næði fullum skriði. Hún varaði þó við því að yfirstandandi bylgja faraldursins á meginlandi Evrópu gæti að mörgu leyti haft verri áhrif á væntingar fyrirtækja og almennings til þróunar efnahagsmála: „Þó að þessi bylgja núna sé ekki jafn þung og sú í vor er hagkerfinu ekki minna ógnað. Einkum og sér í lagi ef almenningur sér faraldurinn ekki sem eitthvað sem gerist bara einu sinni, heldur muni skapa varanlegar breytingar á hegðun allra til langs tíma,“ sagði Lagarde, sem nefndi einnig að áhrifa faraldursins myndi gæta áfram langt inn í næsta ár.

Verðbólgan verður neikvæð lengur en áður var reiknað með.

Peningaprentvélar Evrópska seðlabankans hafa verið rauðglóandi síðastliðin misseri, en aðgerðir bankans í gegnum endurkaup ríkisskuldabréfa og lán til fjármálafyrirtækja vegna faraldursins gætu á endanum hlaupið á þúsundum milljarða evra. Innlánavextir fjármálafyrirtækja hjá seðlabankanum standa nú í mínus 0,5 prósentum og hafa aldrei verið lægri.

Verðhjöðnun er á evrusvæðinu um þessar mundir, en væntingar greiningaraðila standa til þess að verðbólgumæling októbermánaðar muni verða -0,3 prósent. Þrátt fyrir lágt vaxtastig og mikla aukningu peningamagns í umferð, hefur Lagarde engar áhyggjur af því að verðbólga muni gera vart sig á næstunni á evrusvæðinu. „Lítil eftirspurn og slaki í hagkerfinu vega upp á móti verðbólguþrýstingi um þessar mundir. Verðbólgan verður neikvæð lengur en áður var reiknað með,“ sagði Lagarde.