Seðlabankastjóri hefur áhyggjur af því í aðdraganda alþingiskosninga að slakað verði enn frekar á taumhaldi ríkissjóðs og hallareksturinn, sem er áætlaður um 326 milljarðar á þessu ári, verði því enn meiri en áætlað er. Það gæti þýtt að vextir Seðlabankans þurfi að hækka fyrr en ella.

Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við Markaðinn, nýjum viðtals – og fréttaþætti um íslenskt viðskiptalíf, sem var sýndur á Hringbraut í gærkvöldi.

Spurður hvort hvaða hættur steðji að hagkerfinu þegar litið er fram á árið bendir hann meðal annars á það séu kosningar í vændum í haust og litið til sögunnar hafi ríkisfjármálin ávallt haft afgerandi áhrif á peningastefnuna.

„Það liggur fyrir að um leið og hagkerfið tekur við sér geta ekki bæði Seðlabankinn og ríkissjóður verið með fótinn á bensíngjöfinni. Þá verður væntanlega annar aðilinn að draga sig til hlés. Ef ríkið ætlar ekki að gera það verðum við að gera það,“ útskýrir Ásgeir.

Þyrfti bankinn þá að hækka vexti fyrr en ella?

„Já, mögulega eða að byrja að draga peningamagnið aftur inn í Seðlabankann eða gripið til sambærilegra aðgerða,“ segir Ásgeir.

Markaðurinn er á dagskrá Hringbrautar öll þriðjudagskvöld klukkan 21:00.