Greining Íslandsbanka telur að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum óbreyttum í 0,75 prósent þar til skýrar vísbendingar séukomnar fram um efnahagsbata. Verði það tæpast fyrr en í upphafi næsta árs. Peningastefnunefnd Seðlabakans mun kynna næstu vaxtaákvörðun næstkomandi miðvikudag.

„Ef slær eitthvað í bakseglin á efnahagsbatanum í ár er eflaust enn lengra í hækkun vaxta en ella og ekki er útilokað að þeir muni jafnvel verða lækkaðir eitthvað á árinu ef verulega syrtir í álinn. Hins vegar teljum við ólíklegra að vextir verði hækkaðir fyrr en að ári liðnu, jafnvel þótt batinn verði fyrr á ferð og/eða hraðari en við væntum þar sem líklegt er að slík þróun haldist í hendur við enn hraðari hjöðnun verðbólgu vegna styrkingar krónu,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, í fréttabréfi.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Ljósmynd/Íslandsbanki

Hann segir að efnahagsþróun undanfarinna fjórðunga hafi reynst heldur hagfelldari en óttast var eftir að Kórónukreppan skall á. Bráðabirgðatölur Hagstofunnar fyrir árið 2020 hljóði upp á 6,6 prósenta samdrátt vergrar landsframleiðslu (VLF) frá árinu áður. Til samanburðar hafði Seðlabankinn gert ráð fyrir 7,7 prósenta samdrætti í Peningamálum í febrúar og Greining Íslandsbanka hafði gert ráð fyrir því að samdrátturinn yrði 8,7 prósent.

„Munurinn á rauntölunum og spám liggur auk heldur fyrst og fremst í þróttmeiri innlendri eftirspurn en vænst var, á meðan samdráttur útflutnings var að mestu í takti við væntingar,“ segir Jón Bjarki.

Seigt í innlendri eftirspurn

Í fréttabréfinu er vísað til þess að nýlegir hagvísar bendi að auki heldur til þess að áfram sé seigt í innlendri eftirspurn. Til að mynda hafi kortavelta heimila innanlands aukist um tæplega fimm prósent að raungildi á fyrstu tveimur mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra þótt á móti hefði vissulega orðið nærri helmings samdráttur milli ára í veltu utan landsteinanna. Það sé svipuð mynd og kortatölurnar hafi dregið upp af mánuðunum á undan.

Þá sýni nýbirt könnun SA og Seðlabankans meðal stjórnenda fyrirtækja að væntingar til stöðunnar að hálfu ári liðnu í þeim geira hafa glæðst talsvert undanfarið, bæði hvað varðar innlenda eftirspurn sem og efnahagslífið almennt.

Íslandsbanki spaír því að ferðaþjónustan taki að ná vopnum sínum á seinni helmingi ársins og að hagkerfið allt nái samhliða því aukinni viðspyrnu með minnkandi atvinnuleysi.
Fréttablaðið/Eyþór

„Óvissa um komandi fjórðunga er vissulega enn umtalsverð og tengist auðvitað einna helst því hvernig gengur að ráða niðurlögum Kórónuveirufaraldursins á heimsvísu. Við teljum þó að horfurnar séu enn svipaðar og við spáðum í janúar, þ.e. að ferðaþjónustan taki að ná vopnum sínum á seinni helmingi ársins og að hagkerfið allt nái samhliða því aukinni viðspyrnu með minnkandi atvinnuleysi, vaxandi gjaldeyristekjum, bjartari væntingum meðal landsmanna og auknum innlendum umsvifum. Spár okkar og Seðlabankans í þessum efnum eru því að mati okkar enn í fullu gildi,“ segir Jón Bjarki.

Meiri verðbólga en vænst var

Verðbólga er nú 4,1 prósent. Hún hefur verið heldur meiri en vænst var. „Því ræður einkum tvennt: Í fyrsta lagi hefur eldsneytisverð hækkað mikið frá októberlokum 2020, sem kemur fram bæði beint í eldsneytisverði en einnig með tíð og tíma með óbeinum hætti í gegn um hærra innflutningsverð. Einnig hefur hækkunartaktur íbúðaverðs reynst hraðari en búast hefði mátt við eftir að Kórónuveirufaraldurinn skall á, en þar hefur einmitt miðlun slakari peningastefnu yfir í lægri útlánavexti haft töluverð áhrif,“ segir hann.

Miðað við nýjustu verðbólguspá Íslandsbanka er útlit fyrir að verðbólga á fyrsta fjórðungi ársins verði 4,2 prósent. Enn sem fyrr eru þó horfur á allhraðri verðbólguhjöðnun. Bankinn gerir ráð fyrir því að verðbólga verði við 2,5 prósent markmiðið um næstu áramót. Í kjölfarið spáir hann að verðbólga verði rétt undir markmiðinu að jafnaði út árið 2023.